Nýr framkvæmdastjóri Staðlaráðs 31.12.17

Helga Sigrun

Helga Sigrún Harðardótttir
verðandi framkvæmdastjóri
Staðlaráðs Íslands.

Tímamót verða hjá Staðlaráði Íslands um áramótin, þegar Guðrún Rögnvaldardóttir lætur af störfum sem framkvæmdastjóri og Helga Sigrún Harðardóttir tekur við.

Guðrún hefur verið framkvæmdastjóri Staðlaráðs í 20 ár, frá ársbyrjun 1998, en hefur starfað hjá Staðlaráði (áður staðladeild Iðntæknistofnunar) frá febrúar 1991, að undanskildu einu ári þegar hún starfaði hjá evrópsku staðlasamtökunum CEN í Brussel 1995 - 1996.  Á þessum tíma hefur Guðrún gegnt ýmsum trúnaðarstörfum í alþjóðlegu samstarfi staðlastofnana. Hún var varaforseti evrópsku rafstaðlasamtakanna CENELEC 2007 - 2010, átti sæti í stjórn alþjóðlegu staðlasamtakanna ISO 2005 - 2006 og aftur 2011 - 2012, og hefur frá ársbyrjun 2013 verið varaforseti evrópsku staðlasamtakanna CEN og jafnframt formaður tækniráðs CEN, en lætur nú af því embætti.

Guðrún flytur til Brussel í byrjun janúar og tekur þar við starfi sérfræðings á skrifstofu EFTA, með áherslu á staðla og frjálst flæði vöru á innri markaði Evrópu. Staðlaráð þakkar Guðrúnu störf hennar fyrir Staðlaráð síðustu 27 árin og óskar henni velfarnaðar á nýjum vettvangi.

Helga Sigrún er lögfræðingur að mennt og er einnig kennaramenntuð og með próf í náms- og starfsráðgjöf og í samskiptastjórnun. Síðustu ár hefur hún starfað sem framkvæmdastjóri Fjölís, hagsmunasamtaka höfunda. Hún hefur einnig verið virk í stjórnmálum, var framkvæmdastjóri þingflokks framsóknarmanna 2005 - 2008, sat á Alþingi 2008 - 2009 og starfaði fyrir Bjarta framtíð 2016 - 2017.  Áður starfaði hún m.a. hjá Impru á Nýsköpunarmiðstöð og hjá Reykjanesbæ við ráðgjöf um frumkvöðlastarf og nýsköpun. Helga hefur gegnt ýmsum trúnaðarstörfum og er m.a. í stjórn Isavia, í velferðarráði Kópavogsbæjar og sat í yfirkjörstjórn Suðvesturkjördæmis 2017.

Staðlaráð býður Helgu Sigrúnu velkomna til starfa og væntir mikils af starfi hennar.

 

 

Staðlaráð Íslands    Þórunnartúni 2, 3. hæð, 105 Reykjavík    Kennitala: 591193 2019    Opnunartími    Sími 520 7150 fax 520 7171

Þessi síða notar vefkökur (e. cookies).

Nánari upplýsingar

Samþykkja