ÍST 85 - Innleiðing jafnlaunastaðals - Reynsla Tollstjóra 31.10.17

Unnur Yr Kristjansdottir

Embætti tollstjóra var með fyrstu stofnunum sem tóku þátt í tilraunaverkefni um innleiðingu hins séríslenska jafnlaunastaðals ÍST 85:2012. Verkefnið hefur staðið frá árinu 2013 og lýkur á þessu ári. Fjármála- og efnahagsráðuneytið hefur leitt verkefnið í samstarfi við velferðarráðneytið og aðgerðahóp stjórnvalda og samtaka aðila vinnumarkaðarins. Alls tóku 11 stofnanir, tvö fyrirtæki og tvö sveitarfélög þátt í verkefninu.

Vottunin

Embætti tollstjóra er brautryðjandi í innleiðingu jafnlaunastaðalsins, en innleiðingu hans lauk hjá embættinu með úttekt og vottun í september 2016. Tollstjóri er fyrsta stofnunin sem öðlast hefur faggilta vottun á jafnlaunakerfi samkvæmt ÍST 85:2012 og státar því af vottunarskírteini frá Vottun hf. númer 1.

Þann 29. júní síðastliðinn afhenti Þorsteinn Víglundsson, félags- og jafnréttismálaráðherra, Snorra Olsen tollstjóra jafnlaunamerkið sem viðurkenningu á því að Embætti tollstjóra starfræki jafnlaunakerfi sem samræmist kröfum reglugerðar um vottun jafnlaunakerfa fyrirtækja og stofnana á grundvelli jafnlaunastaðalsins ÍST 85:2012. Markmið jafnlaunamerkisins er að vera gæðastimpill fyrirtækja og stofnana sem hlotið hafa jafnlaunavottun. Þannig staðfestir merkið að atvinnurekandi hafi komið sér upp ferli sem tryggi að málsmeðferð og ákvarðanir í launamálum feli ekki í sér neins konar mismunun, hvort sem er vegna kyns eða af öðrum toga

Reynslan af innleiðingu jafnlaunakerfis

Innleiðing jafnlaunastaðalsins hjá embættinu kostaði þó nokkurn tíma og fyrirhöfn en hefur verið vel þess virði. Sú úrvinnsla og greining sem fram þurfti að fara vegna innleiðingarinnar hefur veitt embættinu mjög góða yfirsýn yfir launauppbyggingu og dregið fram hvar hægt er að gera betur. Auk þess er það trú Tollstjóra að vottunin muni gera það enn auðveldara að laða að gott starfsfólk vegna þeirrar viðurkenningar sem hún felur í sér.

Ýmsar aukaafurðir urðu til í tengslum við innleiðingu jafnlaunastaðalsins.  Til dæmis ákvað yfirstjórn Tollstjóra að rétt væri að skipa jafnréttisfulltrúa hjá embættinu. Jafnréttisfulltrúi starfar með yfirstjórn að því að tryggja að jafnréttisáætlun sé framfylgt. Hann tekur saman árlega skýrslu um stöðu jafnréttismála hjá embættinu og gerir tillögur til úrbóta gerist þess þörf. Einnig var útkoma starfaflokkunarinnar notuð við gerð stofnanasamninga og endurgerð starfslýsinga.

Kynning á ÍST 85

Embætti tollstjóra hefur tekið virkan þátt í að kynna jafnlaunastaðalinn og þann ávinning sem innleiðing hans hefur fyrir stofnanir og fyrirtæki. Fulltrúar embættisins hafa staðið fyrir kynningum innanhúss hjá embættinu auk þess sem kynningar hafa verið haldnar fyrir stofnanir, fyrirtæki og félagasamtök innanlands. Þá hefur Embætti tollstjóra, samkvæmt beiðni, haldið kynningar á innleiðingu staðalsins og jafnréttismálum Tollstjóra hjá Alþjóða tollastofnuninni (WCO), á kynningarfundi íslenska sendiráðsins í Brussel og EFTA. Grein eftir undirritaða um staðalinn og innleiðingu hans birtist í júníhefti WCO News, sem er tímarit Alþjóða tollastofnunarinnar.  Einnig hafa fréttamenn frá NY Times og BBC News fengið viðtöl vegna innleiðingar staðalsins.

Hjá embætti Tollstjóra er áhersla lögð á að virða sjónarmið varðandi jafnrétti og fjölbreytileika. Embættið vill vera í fararbroddi stofnana og fyrirtækja í jafnréttismálum og hefur því að leiðarljósi að stuðla að stöðugum umbótum og framförum á því sviði.

Unnur Ýr Kristjánsdóttir, forstöðumaður mannauðssviðs Tollstjóra.

Staðlaráð Íslands    Þórunnartúni 2, 3. hæð, 105 Reykjavík    Kennitala: 591193 2019    Opnunartími    Sími 520 7150 fax 520 7171

Þessi síða notar vefkökur (e. cookies).

Nánari upplýsingar

Samþykkja