Staðlar um allt milli himins og jarðar - Hvernig njóta má sólmyrkva 28.09.17

Solmyrkvi

Staðlar eru til um allt milli himins og jarðar. Eitt dæmi er íslenski staðallinn ÍST EN ISO 12312-2 Augn- og andlitsvarnir - Sólgleraugu og samskonar augnbúnaður - Hluti 2: Ljóssíur til sólskoðunar. Staðallinn á mikilvægan þátt í að gera fólki kleift að njóta sólmyrkva án þess að hljóta skaða af.

Það verður ekki næst fyrr en 12. ágúst 2026 að sól myrkvast alveg í Reykjavík, 100%. En þangað til verða þrír sólmyrkvar; tveir deildarmyrkvar, einn hringmyrkvi og einn almyrkvi, þar sem 47% sólar myrkvast, séð frá Reykjavík. Í öllum tilfellum þarf að gæta varúðar.

Sólmyrkvar eru mikið sjónarspil og fanga athygli okkar, en eina augnablikið sem óhætt er að horfa á fyrirbærið berum augum er þegar tungl skyggir algerlega á sólu. Það verður, sem sagt, næst árið 2026. Þangað til, og á öllum öðrum augnablikum meðan sólmyrkvi á sér stað, er hættulegt að horfa berum augum. Það á einnig við þegar horft er á sólmyrkva t.d. í gegnum sjónauka eða myndavél. Að horfa á sólina berum augum getur valdið alvarlegum augnskaða og jafnvel blindu. Því þarf að nota viðeigandi og fullnægjandi hlífðarbúnað.

Um slíkan búnað snýst staðallinn ÍST EN ISO 12312-2. Þar eru skilgreindar öryggiskröfur og prófunaraðferðir fyrir vörur sem ætlaðar eru til beinnar sjónrænnar skoðunar á sólinni. Staðallinn gerir einnig kröfu um að slíkri vöru fylgi nafn og heimilisfang framleiðanda, notkunarleiðbeiningar, varúðarorð um þann skaða sem skoðun sólarinnar án hlífðarbúnaðar getur valdið, varnaðarorð um að skemmdum ljóssíum skuli skipt út, leiðbeiningar um varðveislu vörunnar, viðhald og hreinsun, og tiltaka skal hvenær varan telst útrunnin.

ÍST EN ISO 12312-2 er skínandi dæmi um gagnsemi staðla og nauðsyn staðlastarfs.

Staðlaráð Íslands    Þórunnartúni 2, 3. hæð, 105 Reykjavík    Kennitala: 591193 2019    Opnunartími    Sími 520 7150 fax 520 7171

Þessi síða notar vefkökur (e. cookies).

Nánari upplýsingar

Samþykkja