Evrópsk stöðlun - Framtíðarsýn 13.03.17

 joint initiative_undirskrift
Á myndinni eru, talið frá vinstri: Anna Constable, Officer, EFTA, Margrethe Asserson, Senior Officer, EFTA, Hein Bollens, Deputy Head of Unit, DG GROW, Joaquim Nunes de Almeida, Director, DG GROW, Bergdís Ellertsdóttir, sendiherra Íslands í Brussel, og Guðrún Rögnvaldardóttir, framkvæmdastjóri Staðlaráðs Íslands

Þann 9. mars var athöfn í ráðstefnusal hjá Evrópusambandinu þar sem sendiherra Íslands í Brussel, Bergdís Ellertsdóttir, fyrir hönd íslenskra stjórnvalda, og Guðrún Rögnvaldardóttir, framkvæmdastjóri Staðlaráðs Íslands, fyrir hönd Staðlaráðs, skrifuðu undir "Joint Initiative on Standardisation under the Single Market Strategy". Um er að ræða sameiginlega yfirlýsingu framkvæmdastjórnar ESB, aðildarríkja ESB, aðildarríkja EFTA, evrópsku staðlasamtakanna CEN, CENELEC og ETSI, landsstaðlastofnana í Evrópu og fjölmargra annarra sem koma að stöðlun.

Í yfirlýsingunni er sett fram sameiginleg framtíðarsýn fyrir evrópska stöðlun auk 15 aðgerða sem ljúka á fyrir árslok 2019. Á annað hundrað aðilar hafa nú undirritað hana. Þar á meðal eru Evrópusamtök iðnaðar og atvinnulífs, samtök lítilla og meðalstórra fyrirtækja, samtök neytenda, verkalýðsfélög, umhverfissamtök og samtök fyrirtækja í einstökum atvinnugreinum.

Framtíðarsýn

Evrópsk stöðlun leggur veigamikinn skerf til eflingar vaxtar, atvinnu og samfélagslegrar velferðar með því að útvega staðla í háum gæðaflokki og önnur stöðlunarskjöl. Staðlarnir eru þróaðir í samstarfi iðnaðar og annarra á markaði, eftir aðferðum sem samræmast grundvallarreglum Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar WTO um tæknilegar viðskiptahindranir og ESB-reglugerð 1025/2012 um evrópska stöðlun (*). Staðlar eru notaðir til að mæta markaðsþörfum og sem verkfæri við opinbera stefnumótun, þar sem við á, t.d. með því að styðja við innleiðingu innlendra og evrópskra reglugerða. Evrópska stöðlunarkerfið lætur í té heildstætt safn staðla fyrir evrópskan markað og auðveldar einnig aðgang að alþjóðlegum mörkuðum með því að taka upp alþjóðlega staðla alls staðar þar sem hægt er. Stöðlunarstarfið styður einnig við forgangsmál framkvæmdastjórnar ESB og önnur evrópsk stefnumál.

Framtíðarsýnin byggist á sjö gildum, meðal annars samhæfingu staðla sem tryggir frjálst flæði vöru á innri markaði Evrópu; kostum þess að nota staðla til að styðja við innleiðingu laga og reglna; eðli staðla sem valfrjálsra markaðsdrifinna lausna o.fl. 

Nánari upplýsingar um "Joint Initiative on Standardisation" er að finna hér >> 


(*) Innleidd á Íslandi með reglugerð 798/2014.

Staðlaráð Íslands    Þórunnartúni 2, 3. hæð, 105 Reykjavík    Kennitala: 591193 2019    Opnunartími    Sími 520 7150 fax 520 7171

Þessi síða notar vefkökur (e. cookies).

Nánari upplýsingar

Samþykkja