Áhættustjórnun - ISO 31000 13.02.17

Sveinn V. ÓlafssonÁhættustjórnunarstaðallinn ISO 31000:2009 Risk Management - Principles and guidelines inniheldur safn skilgreininga, hugtaka, meginreglna og leiðbeininga fyrir skilvirka áhættustjórnun. Honum má beita fyrir allar tegundir áhættu og í öllum fyrirtækjum. Staðallinn gefur gott yfirlit um ramma og ferli áhættustjórnunar. Innleiðing hans er sniðin að hverju fyrirtæki og þörfum þess. Staðallinn er ekki kröfustaðall heldur hugsaður til að falla að stjórnunarkerfum fyrirtækis sem fyrir eru, eins og til dæmis gæðastjórnunarkerfi samkvæmt ISO 9001.


Staðlaráð mun halda námskeið um áhættustjórnun 2. mars næstkomandi: Áhættustjórnun með hliðsjón af ISO 31000. Markmið námskeiðsins er að þátttakendur þekki uppbyggingu ISO 31000 og kunni að beita staðlinum við að koma á ramma fyrir áhættustjórnun og gera áhættumat. Auk þess að fjalla um uppbyggingu og áherslur ISO 31000 og notkun staðalsins við gerð áhættumats er farið yfir tengsl hans við staðalinn ISO 31010 Risk management - Risk assessment techniques. Nánari upplýsingar um námskeiðið er að finna á heimasíðu Staðlaráðs >>


Áhætta og tækifæri
"Áhætta er afleiðing þess að þú veist ekki hvað þú ert að gera" sagði fjárfestirinn Warren Buffet eitt sinn. Þessi fullyrðing Buffet lýsir ágætlega hvað felst í áhættustjórnun. Það er að vita hvað maður er að gera og auka þannig líkur á að ná settum markmiðum. Við könnumst öll við þetta úr daglegu lífi. Ætli maður að ná tilætluðum árangri verður maður að einbeita sér að undirbúningi og framkvæmd þess verkefnis sem um ræðir. Það er til dæmis mikill munur á því að keyra bíl að sumri í góðu veðri eða í erfiðu færi með hálku og sviptivindum að vetri. Í fyrra dæminu er góðar líkur á að við komumst á leiðarenda en í því seinna er uppi talsverð óvissa um hversu langt við komust og hvort við komumst á leiðarenda. Staðlaða skilgreiningin á áhættu er:


"Áhrif óvissu á markmið."


Vonin um að ná þeim markmiðum sem sett hafa verið er það sem drífur okkur áfram. Það setur mark sitt á alla okkar hegðan í lífinu. Sama má segja um þær skipulagsheildir sem við vinnum hjá eða með. Síðustu áratugir hafa einkennst af upptöku margskonar stjórnunarkerfa innan skipulagsheilda, á sviði gæða, umhverfis, öryggis, eigna o.s.frv. Öll þessi stjórnunarkerfi gera kröfu um að mótuð sé stefna, að sett séu markmið og að nauðsynlegum ferlum sé komið á. Aðeins þannig getur tilætlaður árangur náðst. Leiðin að markmiðunum getur verið auðveld og legið beint við, og allt gengur upp. Eins og í akstri að sumri til. En fljótt skipast veður í lofti og á skellur vetur með sínum "ófyrirsjáanleika", erfiðu og stundum löngu hjáleiðum.


Áhættustjórnun er verkfæri til að bregðast við vetri jafnt sem sumri. Því þegar betur er að gáð ráðast aðstæður af árstíðabundnum sveiflum og í raun kemur fátt á óvart í þessari dæmisögu. Áhættan kann að felast í því að við séum stundum óviðbúin aðstæðum. Góður bílstjóri beitir áhættugrundaðri hugsun, undirbýr ferðalagið og farartækið, fylgist með færð og veðri. Á því byggir hann mat sitt á því hvort haldið skuli af stað eða ekki. Stór rútufyrirtæki ganga mögulega lengra og formgera ferlið og koma upp áhættustjórnun fyrir allan flotann. Slík fyrirtæki þurfa góða stjórn á sínum daglega rekstri í nafni öryggis, áreiðanleika og fjárhagslegs ávinnings. Flóknari rekstur, eins og rekstur flugfélaga, krefst enn öflugri kerfa, ekki síst með tilliti til öryggis.


Áhættu fylgja gjarnan tækifæri sem fela í sér ávinning. Áhættustjórnun er frá því sjónarmiði einnig tækifærisstjórnun.

Sveinn V. Ólafsson, verkfræðingur.

Staðlaráð Íslands    Þórunnartúni 2, 3. hæð, 105 Reykjavík    Kennitala: 591193 2019    Opnunartími    Sími 520 7150 fax 520 7171

Þessi síða notar vefkökur (e. cookies).

Nánari upplýsingar

Samþykkja