Evrópsk staðlaverkefni 2017 16.01.17

Verkefnaskrá evrópsku staðlasamtakanna CEN og CENELEC fyrir árið 2017 hefur verð birt (sjá neðst). Staðlaráð hvetur fyrirtæki og stofnanir til að skoða skrána vandlega og sjá hvort unnið verði að gerð staðla á einhverju sviði sem varða hagsmuni þeirra.

Fyrirtæki og stofnanir sem taka þátt í staðlastarfi eiga auðveldara með að laga vörur sínar og þjónustu að kröfum markaða og nýrri tækni. Stöðlunarstarf eykur samkeppnishæfni fyrirtækja á heimamarkaði jafnt sem alþjóðlegum mörkuðum, og með virkri þátttöku í staðlastarfi er mögulegt að áhrif á markaðsþróun.

Skilvirkasta leiðin til að taka þátt í evrópsku og alþjóðlegu staðlastarfi er að gerast aðili að Staðlaráði og vinna undir hatti fagstaðlaráða þess. Með aðild að Staðlaráði geta fyrirtæki og stofnanir tekið þátt í starfsemi eins eða fleiri fagstaðlaráða. Hlutverk fagstaðlaráða er að hafa umsjón með stöðlun á viðkomandi fagsviði, eiga frumkvæði að og samræma stöðlunarvinnu á fagsviðinu og taka þátt í innlendu og erlendu samstarfi.

Fagstaðlaráðin eru fjögur talsins.

  • Byggingarstaðlaráð (BSTR) er vettvangur stöðlunar á sviði bygginga og mannvirkjagerðar. Helstu áherslusvið í starfsemi þess eru séríslenskir staðlar og innleiðing og aðhæfing evrópskra byggingarstaðla.
     
  • Fagstaðlaráð í fiskimálum (FIF) fylgist með og tekur virkan þátt í alþjóðlegu staðlastarfi um fiskveiðar, fiskvinnslu og fiskeldi, sem fram fer innan Alþjóðlegu staðlasamtakanna ISO.
     
  • Fagstaðlaráð í upplýsingatækni (FUT) er vettvangur stöðlunar og samræmingar á sviði upplýsingatækni. Helstu áherslusvið í starfsemi þess eru rafræn viðskipti og öryggismál, og þátttaka í evrópsku og alþjóðlegu samstarfi á þessum sviðum.
     
  • Rafstaðlaráð (RST) hefur umsjón með stöðlun á sviði raftækni. Aðaláherslan er á að fylgjast með evrópsku og alþjóðlegu staðlastarfi, gæta íslenskra hagsmuna og auðvelda íslenskum hagsmunaaðilum að nota staðla.

Þeir sem vilja taka þátt í starfsemi einhvers fagstaðlaráðanna gerast aðilar að Staðlaráði og velja þátttöku í viðkomandi fagstaðlaráði. Aðildargjald þeirra rennur þá til faglegrar starfsemi þess. Auk fagstaðlaráðanna eru svonefndar fagstjórnir Staðlaráði til ráðgjafar á afmörkuðum sviðum.

Verkefnaskrá CEN/CENELEC 2017 >>

 

Staðlaráð Íslands    Þórunnartúni 2, 3. hæð, 105 Reykjavík    Kennitala: 591193 2019    Opnunartími    Sími 520 7150 fax 520 7171

Þessi síða notar vefkökur (e. cookies).

Nánari upplýsingar

Samþykkja