Ársfundur og vinnufundur tækninefndar Alþjóðlegu staðlasamtakanna (ISO) á Íslandi 31.05.16

Ein af tækninefndum Alþjóðlegu staðlasamtakanna (ISO) hélt ársfund sinn ásamt vinnuhópafundum í Safnaðarheimili Hafnarfjarðarkirkju dagana 24. - 26. maí.

Um er að ræða undirnefnd SC1 undir ISO Tækninefnd 8 (TC8) sem setur alþjóðastaðla um tæknibúnað í skipum. SC1 vinnur alþjóðastaðla um allt er varðar björgunarbúnað og eldvarnir í skipum.

Sjobjorgun

Fundinn sátu 24 erlendir þátttakendur, m.a. frá Kína, Japan, Bandaríkjunum, og Evrópu. Frá Íslandi voru Björgvin Þór Steinsson fyrir hönd Skipstjórnarskóla Tækniskólans og Pétur Th. Pétursson framkvæmdastjóri Markus Lifenet ehf. en Pétur sá um allan undirbúning fundarins og tæknilega framkvæmd í nafni Staðlaráðs Íslands.

Mikil ánægja var með allar aðstæður og var árangur fundarins eftir því. Meðal annars var grunnur lagður að nýjum alþjóðastaðli um búnað sem á að geta skynjað þegar maður fellur fyrir borð af háum skipum, svo sem farþegaskipum. Lokið var við að yfirfara staðla um gasskynjara, lóðsstiga, skoðun og prófanir á uppblásanlegum björgunarbátum. Þá var lokið við að skrifa nýjan staðal um skoðun og prófanir á björgunargöllum og björgnarvestum. Einnig var lagt fram skjal til undirbúnings að gerð alþjóðastaðla varðandi sérkröfur til skipa sem sigla nálægt suðurskauts- og norðurskautssvæðum.

Samþykkt var að drög að fyrsta alþjóðastaðlinum um búnað til að bjarga fólki úr sjó fari til lokaumsagnar meðal aðalfulltrúa í TC8, en Pétur Th. hefur verið frumkvöðull og verkefnisstjóri fyrir það verkefni.

Einnig var samþykkt að tillögu Péturs Th. að leggja fyrir ársfund TC8, sem haldinn verður í Kína í september á þessu ári, tillögu um að unnið verði að nýjum upplýsingastaðli um hvernig skuli standa að því að fara eftir manni í sjó, í báti, björgunarbúnaði eða með því að björgunarmaður fari beint í sjó. Lagði Pétur Th. fram nær fullunnin drög að slíkum staðli. Um er að ræða tækni sem Markús B. Þorgeirsson innleiddi með Markúsarnetinu árið 1981 og kennd hefur verið frá stofnun Slysavarnarskóla sjómanna og snýst um að auka öryggi björgunarmanna jafnframt því að auka líkur á björgun manna úr sjó þegar aðrar leiðir eru ekki færar.Tillaga Péturs snýst einnig um að skýra réttarstöðu útgerðar, skipstjórnarmanna og sjómanna sem leggja sig í slíka hættu og áhættu sem þeir taka við slíkar aðgerðir.

Þeir einstaklingar og fyrirtæki, sem telja sig hafa sérþekkingu og/eða hagsmuna að gæta varðandi gerð alþjóðastaðla á þessu sviði geta fengið nánari upplýsingar hjá Pétri Th. um gerð slíkra staðla innan ISO/TC8.

Staðlaráð Íslands    Þórunnartúni 2, 3. hæð, 105 Reykjavík    Kennitala: 591193 2019    Opnunartími    Sími 520 7150 fax 520 7171

Þessi síða notar vefkökur (e. cookies).

Nánari upplýsingar

Samþykkja