Nýr ISO 14001 - Í takti við þróun umhverfisstjórnunar 29.10.15

Vart líður sá dagur að málefni umhverfisins komi ekki við sögu í fréttum fjölmiðla. Í auknum mæli gera menn sér grein fyrir mikilvægi góðrar stjórnunar þessa málaflokks í rekstri fyrirtækja, stofnana og sveitarfélaga. Umhverfisvandamál á borð við aukin gróðurhúsaáhrif kalla á sameiginlegt átak allra og staðallinn ISO 14001 Umhverfis-stjórnunarkerfi - Kröfur ásamt leiðsögn um notkuner einmitt það tól sem fyrirtæki geta nýtt sér til að koma á góðri stjórnun umhverfismála.

 Eva Yngvadóttir 

  Helga Jóhanna  

Eva Yngvadóttir,
verkefnisstjóri EFLU
verkfræðistofu.

Helga Jóhanna bjarnadóttir,
sviðsstjóri umhverfissviðs
EFLU verkfræðistofu
.

 

Nýjar áherslur

ISO 14001 kom fyrst út árið 1996 og er í dag lang útbreiddasti staðallinn í heiminum á sviði umhverfisstjórnunar. Í september síðastliðnum leit dagsins ljós töluvert mikið endurbætt útgáfa staðalsins. Í nýrri útgáfu er ákveðin áherslubreyting þar sem tekið er mið af breytingum sem orðið hafa í umhverfisstjórnun á síðustu árum ásamt breytingum sem orðið hafa í miðlun upplýsinga og geymslu gagna.

Staðallinn byggir nú í ríkari mæli á hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar en áður var. Lögð er áhersla á að fyrirtæki beiti ekki eingöngu fyrirbyggjandi aðgerðum, t.d. mengunarvörnum í eigin starfsemi  (e. Prevention of pollution), heldur taki á rót vandans ogverji umhverfið(e. Protect the environment). Nú er einnig lögð áhersla á að umhverfisþættir fyrirtækisins séu ekki aðeins þættir í eigin starfsemi sem áhrif hafa á umhverfið heldur einnig þættir annars staðar í virðiskeðjunni, sem fyrirtækið getur haft áhrif á. Þannig er vistferilshugsun orðinn mikilvægur þáttur í ISO 14001 (e. Life Cycle Thinking). Sem dæmi má nefna að við hönnun og framleiðslu á vöru er reynt að draga úr heildarumhverfisáhrifum sem verða í vistferli vörunnar (hönnun, innkaup, framleiðsla, flutningur, notkun, endurvinnsla eða förgun). Mikilvægt er að fyrirtækið sé í góðu samstarfi við aðra í virðiskeðjunni til að draga úr áhrifum sem geta orðið ofar í keðjunni, t.d. við öflun hráefna, eða neðar í virðiskeðjunni við endurvinnslu.

Aukið hluverk stjórnenda og yfirsýn

Önnur meginbreyting er að lögð er ríkari áhersla á hlutverk yfirstjórnar í umhverfis-stjórnuninni og að umhverfisstjórnunin fléttist inn í alla stefnu- og áætlanagerð tengda viðskiptaferlum fyrir-tækisins.  Lögð er áhersla á árangur í umhverfismálum og að viðmið þar að lútandi séu til umræðu bæði á efstu stjórnunarstigum sem og í mismunandi rekstrareiningum.  

Önnur breyting sem má nefna er að fyrirtæki þurfa að þekkja ytra umhverfi sitt (e. The context of the organization), ekki einungis lagalegar kröfur heldur einnig hverjir eru hagsmunaaðilar fyrirtækisins og hvaða kröfur þeir gera til fyrirtækisins á sviði umhverfismála. Lögð er áhersla á að fyrirtæki geri sér grein fyrir þeirri áhættu sem tengist kröfum sem snúa að umhverfismálum og nýti tækifæri til að gera betur og jafnvel spari fjármagn í leiðinni.

Staðallinn ISO 14001:2015 er nú með sama grundvallarsniði og aðrir stjórnunarstaðlar ISO, t.d.  gæðastjórnunarstaðallinn ISO 9001 og væntanlegur ISO 45001, staðall um vinnuverndarmál sem er í undirbúningi. (núverandi OHSAS 18001). Þessi breyting einfaldar alla samræmingu milli þessara þriggja stjórnunarstaðla þannig að fyrirtæki eiga auðveldara með að innleiða þá alla í stjórnkerfi sitt. 

Virk umhverfisstjórnun í takt við kröfur ISO 14001:2015  leiðir fyrirtæki inn á þá braut að leita stöðugt tækifæra til hagkvæmra umbóta á sviði umhverfismála svo sem með sjálfbærri nýtingu auðlinda og minni losun gróðurhúsalofttegunda.

Fyrirtæki sem í dag eru vottuð skv. ISO 14001:2004 hafa þrjú ár til að aðlaga stjórnkerfi sitt að breyttum kröfum.

Staðlaráð Íslands    Þórunnartúni 2, 3. hæð, 105 Reykjavík    Kennitala: 591193 2019    Opnunartími    Sími 520 7150 fax 520 7171

Þessi síða notar vefkökur (e. cookies).

Nánari upplýsingar

Samþykkja