Nýjar útgáfur! ISO 14001 og ISO 9001 29.10.15

Í september tóku gildi nýjar útgáfur tveggja alþjóðlegra staðla sem má fullyrða að séu þekktustu staðlarAlþjóðlegu staðlasamtakannaISO. Um er að ræða gæðastjórnunarstaðalinn ISO 9001 og umhverfisstjórnunarstaðalinn ISO 14001. Fullt heiti staðlanna er annars vegar ISO 9001 Gæðastjórnunarkerfi - Kröfur og hins vegar ISO 14001 Umhverfisstjórnunarkerfi - Kröfur ásamt leiðsögn um notkun.

ISO 9001:2015

"ISO 9001 gerir fyrirtækjum betur kleift að laga sig að breyttum aðstæðum. Staðallinn eykur getu fyrirtækja til að uppfylla óskir viðskiptavina og leggja traustan grunn að vexti og viðvarandi árangri", segir starfandi forseti ISO, Kevin McKinley.

Að sögn Nigel Crofts, formanns vinnuhópsins sem hefur þróað og endurskoðað staðalinn, þá er hér frekar um að ræða þróun en byltingu frá fyrri útgáfu.

"Við erum bara að laga ISO 9001 betur að 21. öldinni. Í fyrstu útgáfum ISO 9001 var lögð töluverð áhersla á fyrirmæli, með mörgum kröfum um skráðar verklagsreglur og skrár. Í útgáfunum frá árinu 2000 og 2008 einbeittum við okkur meira að stjórnun ferla, en lögðum minna upp úr skjalfestingu. Nú höfum við gengið skrefinu lengra. Í ISO 9001:2015 er jafnvel enn minna um fyrirmæli en í fyrri útgáfum, en meiri áhersla á frammistöðu. Okkur tókst þetta með því að tvinna saman ferlisnálgun og hugmyndafræði áhættustjórnunar, ásamt því að nota umbótahringrásina, skipuleggja - gera -athuga/skoða - fylgja eftir (e. PLAN - DO - CHECK - ACT), á öllum sviðum fyrirtækisins.

Þar sem við vitum að fyrirtæki í dag styðjast við fleiri stjórnunarkerfisstaðla, þá höfum við gert útgáfuna árið 2015 þannig úr garði að hana megi auðveldlega fella inn í önnur stjórnunarkerfi. Nýja útgáfan þjónar einnig sem grunnur fyrir gæðastaðla sem bundnir eru tilteknum geirum atvinnulífsins (bílaiðnaði, flugvélaiðnaði, lækningatækjaiðnaði), og tekur mið af þörfum eftirlitsstofnanna."

ISO 14001:2015

Nýja útgáfan tekur mið af nýjum straumum, eins og aukinni vitund fyrirtækja um að taka þurfi tillit til bæði innri og ytri þátta ef meta eigi áhrif starfseminnar á umhverfið, þar með talið þátta eins og loftslagsbreytinga.

Aðrar lykilendurbætur í nýju útgáfunni varða meðal annars í eftirfarandi:

  • Að áætlunum sé fylgt fastar
  • Aukna áherslu á forystu, skuldbindingu æðstu stjórnenda
  • Aukna vernd umhverfisins með forvirkum aðgerðum
  • Skilvirkari og skipulagðari samskipti
  • Að hugað sé að líftíma vöru og þjónustu á hverju stigi, allt frá vöruþróun og svo lengi sem varan endist.

Tuttugu ár eru bráðum liðin frá því ISO 14001 kom fyrst út. Anne-Marie Warris er formaður tækninefndarinnar sem þróaði staðalinn og sá um endurskoðun hans. Hún er sannfærð um að staðallinn muni verða mikilvægur önnur tuttugu ár til viðbótar: "ISO 14001 hefur uppfyllt margar vonir sem við höfum gert okkur síðastliðin tuttugu ár, þar á meðal að hjálpa fólki til þess að stjórna öllum umhverfisþáttum á heildstæðan máta."

Áætlað er að ISO 14001:2015 taki gildi sem íslenskur og evrópskur staðall í október. Ekki hefur verið tekin ákvörðun um íslenska þýðingu hans. Íslensk útgáfa ISO 9001:2015 tekur væntanlega gildi snemma á næsta ári. Unnið er að þýðingu staðalsins. Rétt er að minna á að vottanir samkvæmt eldri útgáfum beggja staðla eru gildar allt að þrem árum eftir að að nýju útgáfurnar taka gildi.

Staðlaráð Íslands    Þórunnartúni 2, 3. hæð, 105 Reykjavík    Kennitala: 591193 2019    Opnunartími    Sími 520 7150 fax 520 7171

Þessi síða notar vefkökur (e. cookies).

Nánari upplýsingar

Samþykkja