ISO 14001 - Ný útgáfa! 15.09.15

Í dag, 15. september, tekur gildi ný útgáfa alþjóðlega staðalsins ISO 14001 Umhverfisstjórnunarkerfi - Kröfur ásamt leiðsögn um notkun. Staðallinn er einn þeirra alþjóðlegu staðla sem náð hafa hvað mestri útbreiðslu í heiminum. Yfir 300 þúsund vottanir samkvæmt ISO 14001 eru gefnar út í heiminum á hverju ári.

Útgáfan tekur mið af nýjum straumum, eins og aukinni vitund fyrirtækja um að taka þurfi tillit til bæði innri og ytri þátta ef meta eigi áhrif starfseminnar á umhverfið, þar með talið þátta eins og loftslagsbreytinga.

Aðrar lykilendurbætur í nýju útgáfunni varða meðal annars í eftirfarandi:

  • Aukna áherslu á forystu, skuldbindingu æðstu stjórnenda
  • Að áætlunum sé fylgt fastar
  • Aukna vernd umhverfisins með forvirkum aðgerðum
  • Skilvirkari og skipulagðari samskipti
  • Að hugað sé að líftíma vöru og þjónustu á hverju stigi, allt frá vöruþróun og svo lengi sem varan endist.

Tuttugu ár eru bráðum liðin frá því ISO 14001 kom fyrst út. Anne-Marie Warris er formaður tækninefndarinnar sem þróaði staðalinn og sá um endurskoðun hans. Hún er sannfærð um að staðallinn muni verða mikilvægur önnur tuttugu ár til viðbótar: "ISO 14001 hefur uppfyllt margar vonir sem við höfum gert okkur síðastliðin tuttugu ár, þar á meðal að hjálpa fólki til þess að stjórna öllum umhverfisþáttum á heildstæðan máta."

Yfir 120 sérfræðingar frá 88 aðildarlöndum Alþjóðlegu staðlasamtakanna ISO komu að endurskoðun staðalsins.

ISO 14001:2015 er fáanlegur í Staðlabúðinni. Sjá hér >>

Áætlað er að ISO 14001:2015 taki gildi sem íslenskur og evrópskur staðall í október. Ekki hefur verið tekin ákvörðun um íslenska þýðingu hans.

Staðlaráð Íslands    Þórunnartúni 2, 3. hæð, 105 Reykjavík    Kennitala: 591193 2019    Opnunartími    Sími 520 7150 fax 520 7171

Þessi síða notar vefkökur (e. cookies).

Nánari upplýsingar

Samþykkja