Nýr staðall um trampólín 23.06.15

Hoppaðu öruggt inn í vorið - Nýr staðall um öryggi trampólína, ÍST EN 71-14


Trampólín eru ákaflega skemmtileg og á sumrin má sjá þau í flestum görðum. Árlega berast fréttir af slysum í tengslum við notkun þeirra. Slysin hefur ýmist mátt rekja til þess að trampólínin eru ekki notuð á réttan hátt eða að þau eru ekki nægilega vönduð og örugg.
Á þessu ári tók gildi nýr staðall um trampólín sem er ætlað að auka öryggi þeirra. Það er því ástæða til að vekja athygli kaupenda nýrra trampólína á staðlinum og hvetja þá til að kaupa eingöngu trampólín sem uppfylla ákvæði staðalsins ÍST EN 71-14 sem er partur af leikfangastaðlinum.

"Ég hef fylgst með gerð staðalsins í gegnum ANEC sem eru Evrópsk hagsmunasamtök um aðild neytenda að staðlagerð (ANEC the European consumer voice in standardisation) og er þess fullviss að öryggi vörunnar mun aukast til muna við tilkomu staðalsins" segir Fjóla Guðjónsdóttir fulltrúi ANEC fyrir hönd Neytendasamtakanna.

Í staðlinum er fjallað um trampólín sem eru til einkanota hvort sem þau eru staðsett inni eða úti út frá þremur stærðarflokkum (lítil, miðlungs og stór) Sérstaklega eru horft til eftirfarandi atriða:

  • ekki sé hægt að festa fingur, fætur, hendur, höfuð eða háls
  • ekki séu til staðar hvöss horn
  • að öryggisnet fylgi með miðlungs og stærri gerð trampólína
  • að hlífar yfir gorma séu góðar
  • að efni sem notuð er hafi góða endingu og dúkur eða net geti ekki rifnað auðveldlega
  • styrks og stöðugleika trampólíns og stiga 
  • að fjöðrun dýnu sé í lagi
  • að viðvaranir, merkingar og leiðbeiningar um rétta og örugga notkun sé til staðar


Staðallinn gildir ekki um trampólín sem grafa á niður í jörðina. Vert er að vekja athygli á því að trampólín sem algengust eru í verslunum hér á landi henta ekki til þess að grafa ofan í jörðina. Freistandi er að telja að það komi í veg fyrir að börn falli niður með tilheyrandi slysahættu en staðreyndin er sú að það kallar á aðrar hættur s.s. drukknun þar sem vatn safnast saman í gryfjunni undir trampólíninu. Það hefur einnig áhrif á fjöðrunareiginleika leiktækisins og þar með virkni þess. Best er að taka trampólínið niður fyrir veturinn og geyma innandyra til þess að koma í veg fyrir að það fjúki í vondu veðri eða það skemmist fyrr en ella.
Staðallinn gildir heldur ekki um fimleikatrampólín enda er notkun þeirra og eftirlit með öðrum hætti en þegar börn leika sér án eftirlits.

- Þessi frétt er birt með góðfúslegu leyfi Fjólu Guðjónsdóttur, sérfræðings í forvörnum hjá Sjóvá.

Staðlaráð Íslands    Þórunnartúni 2, 3. hæð, 105 Reykjavík    Kennitala: 591193 2019    Opnunartími    Sími 520 7150 fax 520 7171

Þessi síða notar vefkökur (e. cookies).

Nánari upplýsingar

Samþykkja