Rafmagnsöryggi - Staðlar til að uppfylla grunnkröfur 10.03.15

Töluverðar breytingar hafa orðið á reglum um rafmagnsöryggi á síðustu árum. Það eru margir fagmenn á rafmagnssviði sem muna eftir gömlu góðu reglugerðinni, bláu bókinni sem var notuð um árabil en var felld var úr gildi fyrir nokkrum árum. Okkur lét forvitni á að vita hvað hafi komið í stað reglugerðarinnar og hvernig staðlar á rafmagnssviði tengjast rafmagnsöryggismálum í dag. Við spurðum því Jóhann Ólafsson fagstjóra rafmagnsöryggissviðs Mannvirkjastofnunar um þessi mál.

Jóhann Ólafsson 
Hvað kom í stað gömlu reglugerðarinnar?  

Gamla góða reglugerðin sem rafmagnsmenn notuðu í áratugi var orðin ansi úrelt undir það síðasta og það var ekki vilji fyrir því að endurskrifa hana. Í stað þess skrifa ítarlegar tæknilegar reglugerðir hafa stjórnvöld frekar horft til þess að nota alþjóðlega og evrópska staðla á rafmagnssviði. Stjórnvöld setja þá rammann með reglugerðum þar sem gerðar eru kröfur um grunnöryggi sem öll raforkuvirki, háspennt eða lágspennt, verða að uppfylla. Ef síðan kröfur í ákveðnum rafmagnsstöðlum eru uppfylltar, þá er litið svo á að kröfum reglugerðanna sé fullnægt.

Umræddir staðlar eru ÍST 200 Raflagnir bygginga, ÍST EN 61936-1:2010, Háspennuvirki fyrir riðspennu yfir 1 kV- 1. hluti og ÍST EN 50522 Jarðtenging háspennuvirkja fyrir riðspennu yfir 1 kV og háspennulínustaðlarnir ÍST EN 50341-1, ÍST EN 50341-3-12, ÍST EN 50423-1 og ÍST EN 50423-3. Sé hins vegar öðrum aðferðum beitt við hönnun raforkuvirkja en kveðið er á um í áðurnefndum stöðlum skulu þær aðferðir og ástæður fyrir beitingu þeirra skjalfestar.

Hvaða aðstæður eru það, sem gætu gefið tilefni til að nota annað en staðla til að uppfylla kröfur reglugerða?

Góð spurning. Ég veit það satt best að segja ekki, enda nota menn umrædda staðla í flestum tilvikum. Ég man alla vega ekki eftir tilviki þar sem óskað hefur verið eftir að nota aðrar aðferðir við hönnun raflagna og uppsetningu raflagna en fram koma í umræddum stöðlum.

Eru þessir staðlar til á íslensku?

Já, ÍST 200 er til í íslenskri útgáfu og nú er unnið í því að endurskoða hann og gefa út að nýju. Þá er verið að leggja lokahönd á útgáfu á ÍST EN 50522:2010 á íslensku. Hinir staðlarnir, sem ég tiltók, eru hins vegar á ensku og það stendur ekki til að gefa þá út á íslensku að því er ég best veit.

Er verið að þýða fleiri staðla á íslensku?

Já, það er verið að þýða ÍST EN 50110-1: Notkun raforkuvirkja - Hluti 1: Almennar kröfur, staðal sem fjallar um vinnu í lágspenntum og háspenntum raforkuvirkjum. Staðallinn mun koma í stað orðsendingar 1/84. Rekstur, eftirlit og viðhald raforkuvirkja sem hefur verið mikið notuð af rafmagnsmönnum en er orðin úrelt. Það stendur ekki til að þýða fleiri staðla, en ef hagsmunasamtök á rafmagnssviði telja ástæðu til að þýða fleiri staðla þá má alltaf ræða það.

Staðlaráð Íslands    Þórunnartúni 2, 3. hæð, 105 Reykjavík    Kennitala: 591193 2019    Opnunartími    Sími 520 7150 fax 520 7171

Þessi síða notar vefkökur (e. cookies).

Nánari upplýsingar

Samþykkja