Rafstaðlaráð - Spennandi verkefni 10.10.14

Sigurdur Sigurdarson nyÁ vegum Rafstaðlaráðs er unnið að ýmsum áhugaverðum verkefnum. Hér á eftir er upptalning á þeim helstu:

 • Endurskoðun staðalsins ÍST 200:2006 Raflagnir bygginga stendur yfir í samvinnu við Mannvirkjastofnun. Staðallinn er byggður á evrópskum samræmingarskjölum, HD 60364, en þau eru aftur á móti aðlöguð útfærsla af alþjóðastaðlinum IEC 60364.

  Frá því að ÍST 200 kom út árið 2006 hafa ýmsar breytingar orðið á gildandi samræmingarskjölum sem staðallinn byggir á. Því var þörf á uppfærslu og aðlögun. Samræmingarskjölin HD 60364 eru í notkun í öðrum Evrópulöndum. Því eru svo til sömu kröfur um hönnun, efni og búnað í öllum Evrópulöndum.

  Áætlað er að frumvarp að ÍST 200:2015 verði auglýst til umsagnar um áramót og að nýr staðall verði gefinn út á vormánuðum. Það er þó háð fjármögnun verksins. Í framhaldi af því yrði handbókin um staðalinn, svokallaður "Staðalvísir", yfirfarin og endurútgefin. 
   
 • Endurskoðun á tækniforskriftinni TS 151:2009 Fjarskiptalagnir í íbúðarhúsnæði. Líftíma tækniforskriftarinnar lauk í vor, en hann er að hámarki 5 ár. Góð reynsla var af notkun tækniforskriftarinnar og var því ákveðið að gefa hana út sem íslenskan staðal, ÍST 151. 

  TS 151 byggir m.a. á gildandi evrópskum stöðlum en dregur saman í eitt rit mismunandi gerðir lagna og lagnaútfærslur. Meðal annars er þar tekið á loftnetskerfum, netkerfum, símakerfum og hússtjórnarkerfum. Einnig er tekið á frágangi og prófunum. Vonast er til að vinnu við gerð staðalsins ljúki á þessu ári.
   
 • Íslenskur þjóðarviðauki við nýjan staðal fyrir háspennulínur, ÍST EN 50341. Í nýrri útgáfu af þessum staðli eru sameinaðir tveir eldri staðlar, annar fyrir línur frá 1 kV til og með 45 kV málspennu og hinn fyrir línur yfir 45 kV málspennu. Áætlað er að þjóðarviðaukinn verði tilbúinn fyrir áramót.

Draumur Rafstaðlaráðs er að gefa út fleiri handbækur og fræðirit á íslensku fyrir hönnuði og rafiðnaðarmenn. Þetta hefur ekki gengið eftir nema að litlu leyti vegna skorts á fjármagni. Nú hefur hins vegar rofað til og hefur Fræðsluskrifstofa rafiðnaðarins óskað eftir samstarfi við Rafstaðlaráð í þessum efnum.

Sigurður Sigurðarson, verkefnastjóri í raftækni hjá Staðlaráði Íslands.

Staðlaráð Íslands    Þórunnartúni 2, 3. hæð, 105 Reykjavík    Kennitala: 591193 2019    Opnunartími    Sími 520 7150 fax 520 7171

Þessi síða notar vefkökur (e. cookies).

Nánari upplýsingar

Samþykkja