Nýir staðlar - Vistvænar byggingar 10.10.14

Norðurlöndin hafa sameiginlega sent út til kynningar drög að þremurJon Sigurjonsson stöðlum. Staðlarnir fjalla um kröfur í sjálfbærum byggingariðnaði. Með gerð þessara staðla eru Norðurlöndin að taka forystu í Evrópu um vistvæna stöðlun í mannvirkjagerð. Niðurstaða vinnunnar mun verða kynnt fyrir evrópsku staðlasamtökunum CEN með það að leiðarljósi að leggja samnorrænan grunn að evrópskri stöðlun um efnið.

"The Nordic region as Standard Maker"
Vinnuhópar með fulltrúum allra Norður-landanna hafa verið starfandi um hvert verkefni. Í hópunum hafa hagsmunaaðilar miðlað af sinni reynslu við að efla samræmingu í byggingartengdri staðlagerð á Norðurlöndum, og um leið lagt til efni í framtíðarvinnu við evrópska staðlagerð á byggingarsviði.

Fyrir Íslands hönd hefur Byggingarstaðlaráð leitt vinnuna við verkefnið, sem ber vinnuheitið The Nordic region as Standard Maker. Verkefnið skiptist í þrjú undirverkefni:

 • Vistvænar endurbætur bygginga
  Í tillögunni er m.a. horft til krafna til sparnaðar á orku sem og sjálfbærni yfir líftíma bygginga. Vinna hópsins hefur miðað að því að setja fram samræmd markmið í mótun sjálfbærrar hugsunar við endurgerð bygginga og búa til viðmið (indikatora) til að varða veginn við ákvarðanir um endurbætur.
   
 • Innivist bygginga og stöðlun á valkvæðri flokkun
  Vaxandi krafa er um gott og heilsusamlegt umhverfi inni í byggingum. Í tillögunni eru sett fram viðmið um lykilþætti sem leggja grunn að góðri innivist. Höfuðvandinn við verkefnið felst í því að takmarka viðmiðin þannig að raunhæf vinnugögn verði til.
   
 • Evrópureglur í nánustu framtíð um byggingarvörur og yfirlýsingu byggingarvara
  Norðurlöndin þurfa að standa vörð um framsetningu á kröfum sem varða hagsmuni landanna sérstaklega. Í tillögunni eru sérstaklega til skoðunar kröfur og yfirlýsingar um framleiðslu og notkun varmaeinangrunar og stáls í mannvirkjagerð.

Hægt er að kynna sér verkefnið og koma með ábendingar á vef Norræna nýsköpunarsjóðsins >> - Arngrímur Blöndahl hjá Staðlaráði veitir nánari upplýsingar.

Jón Sigurjónsson, yfirverkfræðingur á mannvirkjasviði Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands.

Staðlaráð Íslands    Þórunnartúni 2, 3. hæð, 105 Reykjavík    Kennitala: 591193 2019    Opnunartími    Sími 520 7150 fax 520 7171

Þessi síða notar vefkökur (e. cookies).

Nánari upplýsingar

Samþykkja