Jafnlaunastaðallinn – nýtt verkfæri jafnréttisbaráttunnar 09.05.14

19. júní 2012, á íslenska kvenréttindadeginum, var haldinn fjölmennur fundur í Reykjavík þar sem þáverandi velferðarráðherra kynnti nýtt verkfæri í jafnréttisbaráttunni, jafnlaunastaðalinn svokallaða. Jafnlaunastaðallinn, ÍST 85, er nýtt verkfæri í jafnréttisbaráttunni sem hjálpar fyrirtækjum að tryggja það að konur og karlar fái greidd sömu laun fyrir sömu eða jafnverðmæt störf.

Sömu laun fyrir sambærilega vinnu
Árið 1961 samþykkti Alþingi lög sem áttu að tryggja launajafnrétti hér á landi. Frummælendur lagafrumvarpsins voru bjartsýnir um að baráttan yrði snögg. Laun kvenna skyldu hækkuð í þrepum næstu sex árin, og 1967 átti fullu launajafnrétti kynjanna að vera náð. Erfiðara reyndist að útrýma launamuninum en þessir frumkvöðlar töldu, enda voru lögin meingölluð. Tekið var fram að frumvarpið grundvallaðist á reglunni um sömu laun fyrir sams konar störf, en allt of flókið var talið að fara í verðmætamat starfsgreina og að greiða sömu laun fyrir sambærileg eða jafnverðmæt störf.

Það var ekki fyrr en árið 1976 að sett voru lög sem kváðu á um sömu laun og sömu kjör kvenna og karla fyrir sambærileg og jafnverðmæt störf. Launamunur kynja hér á landi er þó enn gríðarlegur, en í apríl árið 2013 birti Hagstofa Íslands útreikninga á launakjörum Íslendinga. Óleiðréttur launamunur kynjanna hér á landi var 18,1% árið 2012 og var munurinn 18,5% á almennum vinnumarkaði en 16,2% hjá opinberum starfsmönnum.

Ljóst er að lagasetningar og góður ásetningur verkalýðshreyfingarinnar, stjórnmálamanna og fyrirtækja nægir ekki til að útrýma launamisrétti hér á landi. Tími er kominn til að prófa nýjar leiðir í baráttunni og miklar vonir eru bundnar við hinn nýja jafnlaunastaðal, en jafnlaunastaðallinn er kerfi sem veitir fyrirtækjum leiðbeiningar og reglur sem þau geta fylgt eftir til að tryggja að körlum og konum séu greidd sömu laun og tryggð sömu kjör fyrir jafnverðmæt og sambærileg störf.

Saga jafnlaunastaðalsins
Vinnan við jafnlaunastaðalinn hófst fyrir fjórum árum, en í jafnréttislögunum frá árinu 2008 er ákvæði til bráðabirgða sem sagði að velferðarráðherra skyldi sjá til þess að þróað yrði sérstakt vottunarkerfi á framkvæmd stefnu um launajafnrétti og framkvæmd stefnu um jafnrétti við ráðningar og uppsagnir í samvinnu við samtök aðila vinnumarkaðarins. Sama ár gerðu Alþýðusamband íslands og Samtök atvinnulífsins með sér samkomulag um þróun slíks vottunarferils.

Vinnan við gerð staðalsins tók fjögur ár. Skipuð var sérstök tækninefnd til að vinna að gerð þessa staðals og hafði Staðlaráð Íslands umsjón með verkefninu, en í nefndinni sátu fulltrúar velferðarráðuneytis, Samtaka atvinnulífsins, Alþýðusambands Íslands, Jafnréttisstofu, fjármálaráðuneytis, BSRB, BHM, Félags kvenna í atvinnurekstri, Sambands íslenskra sveitarfélaga, Orkuveitu Reykjavíkur og ParX/Norcon. Tækninefndin skipaði síðan sérstakan vinnuhóp sem samdi drög að texta staðalsins og naut til þess aðstoðar ýmissa sérfræðinga.

Nefndin ákvað að brjóta verkefnið upp og horfa fyrst einungis til launajafnréttis kynja. Staðall um framkvæmd stefnu um jafnrétti við ráðningar og uppsagnir verður sérstakur staðall. Þá var einnig ákveðið að byggja staðalinn upp með sama hætti og alþjóðlegir stjórnunarstaðlar eru byggðir upp, því það auðveldar fyrirtækjum að innleiða staðalinn þegar uppbygging og orðalag eru kunnugleg.

Hvað eru staðlar eiginlega?
Staðlar eru opinber skjöl sem innihalda leiðbeiningar, reglur og/eða skilgreiningar sem kveða á um tiltekna virkni vöru eða að hlutir og vörur séu í réttri stærð og hlutföllum. T.d. fylgja dekk og skrúfur ákveðnum stöðlum, tákn á skiltum eru dæmi um staðla og vörumerkingar, mál og vog. Einnig eru til staðlar sem kveða á um æskileg eða rétt vinnubrögð. Til eru staðlar með leiðbeiningum og reglum til prófunar á efnum og matvælum. Notkun greiðslukorta er gott dæmi um mikilvægi alþjóðlegra staðla, en bæði stærð og gerð korta og upplýsingarnar sem þau innihalda hlíta alþjóðlegum stöðlum.
Hér á Íslandi er það Staðlaráð Íslands sem staðfestir íslenska staðla og er fulltrúi Íslands í alþjóðlegu staðlastarfi. Yfir 23.000 íslenskir staðlar eru í gildi og eiga nær allir uppruna sinn í evrópsku og alþjóðlegu staðlastarfi sem Staðlaráð tekur þátt í.

Alþjóðastaðlasamtökin ISO eru helstu staðlasamtökin á heimsvísu og margir þekkja stjórnunarstaðla frá ISO, svo sem ISO 9001 sem er um gæðastjórnunarkerfi fyrir fyrirtæki og ISO 14001 sem er um umhverfisstjórnunarkerfi og hjálpar fyrirtækjum að hafa stjórn á þeim áhrifum sem starfsemi þeirra hefur á umhverfið. Þessir staðlar og margir fleiri alþjóðlegir staðlar hafa verið staðfestir sem íslenskir staðlar og bera því auðkennið ÍST.

Þegar fyrirtæki hefur innleitt stjórnunarstaðla innan starfsemi sinnar, breytt verkferlum sínum og vinnubrögðum, er leitað til viðurkenndra vottunaraðila sem votta að fyrirtækið uppfylli kröfur staðalsins. Eftir það geta fyrirtæki auglýst að þau uppfylli kröfur þessara staðla og viðskiptavinir geta tekið upplýsta ákvörðun um hvort þeir vilji versla við þessi fyrirtæki.

Staðlar eru mikilvægt tæki til að auðvelda viðskipti, bæði innan einstakra landa og einnig á alþjóðavettvangi. Strangar reglur eru um samningu og samþykkt staðla, og hagsmunaaðilar úr öllum áttum koma að gerð þeirra.

Hvað er jafnlaunastaðallinn?
Jafnlaunastaðallinn ber formlega heitið ÍST 85:2012 - Jafnlaunakerfi - Kröfur og leiðbeiningar. Jafnlaunastaðallinn er stjórnunarkerfi sem setur fram vinnuferli sem fyrirtæki og stofnanir geta fylgt til að tryggja launajafnrétti á sínum vinnustað. Vinnuferlið byggir á innleiðingu markvissra og faglegra aðferða við ákvörðun launa, skjalfestum verklagsreglum, virkri rýni og stöðugum umbótum. Þetta kerfi á að geta nýst öllum fyrirtækjum og stofnunum, óháð stærð þeirra, starfsemi, og hlutverki og hlutfalli kvenna og karla innan vinnustaðarins.

Ýmsir viðaukar fylgja staðlinum, en í þessum viðaukum er t.d. hægt að finna ítarlegri leiðbeiningar um hvernig framkvæma má starfaflokkun, þ.e. hvernig er hægt að flokka og verðmeta störf, en sú flokkun byggir á starfinu sem slíku en ekki starfsmanninum sem vinnur starfið innan vinnustaðarins (hvort starfið er verðmætara fyrirtækinu, ritari eða starfsmaður í eldhúsi? hve mikið verðmætara?). Einnig er viðauki með leiðbeiningum um hvernig framkvæma má launagreiningu þar sem skoðuð eru laun hvers einasta starfsmanns í fyrirtækinu, kyn, menntun, aldur, starfsaldur og starfið sem hann gegnir er skráð og athugað er hvort launin sem sá starfsmaður fær eru sambærileg við aðra starfsmenn í jafnverðmætum störfum, að teknu tilliti til allra breyta sem geta haft áhrif á launin. Að lokum er viðauki með greinargóðu yfirliti yfir ýmsa dóma, úrskurði og álit sem hafa fallið um launamisrétti frá árinu 2000, bæði hér á landi og hjá Evrópudómstólnum.

Jafnlaunastaðallinn - gjöf Íslands til alþjóðasamfélagsins?
Nýja Sjáland kemst næst því að hafa samið jafnlaunastaðal, en árið 2006 var innleiddur þar í landi staðall til að tryggja kynhlutleysi í starfaflokkun, staðallinn NZS 8007:2006 - Gender-inclusive Job Evaluation. Í Ástralíu er nú unnið að því að sníða það kerfi að áströlsku vinnuumhverfi og innleiða samsvarandi staðal.

Ekki er vitað til að annars staðar en á Íslandi hafi verið lagt í þá flóknu og erfiðu vinnu að semja staðlaðar leiðbeiningar, skilgreiningar og reglur fyrir fyrirtæki svo að þau geti útrýmt kynbundnum launamun innan vinnustaðarins, staðal sem beinist að launakerfum fyrirtækja og starfsferlum þeirra við launaákvarðanir. Jafnlaunastaðallinn okkar er, eftir því sem best er vitað, einstakur í heiminum. Staðallinn ÍST 85 er séríslenskur staðall, en við vinnu hans var lögð áhersla á að uppfylla alþjóðleg skilyrði til að auðvelda það að einhvern tíma geti verið hægt að bjóða þennan staðal fram sem tillögu að ISO staðli.

Nú er unnið að því innan velferðarráðuneytisins að semja reglur hvernig beri að standa að vottun jafnlaunakerfa samkvæmt þessum staðli, þ.e.a.s. hvaða þekkingu vottunaraðilar þurfa að hafa á þeim sértæku málefnum sem staðallinn fjallar um, og hvaða reglum þeir þurfa að fylgja til að meta hvort fyrirtæki greiði sömu laun fyrir sömu eða jafnverðmæt störf óháð kyni. Nauðsynlegt er að sú vinna sé vönduð, enda erum við frumkvöðlar í þessu vinnuferli.

Mikilvægt er að sú vinna sem nú er eftir sé unnin vel. Fyrirtækjum gefst nú kostur á að kaupa jafnlaunastaðalinn hjá Staðlaráði Íslands en lítil reynsla er komin af innleiðingu hans innan fyrirtækja. Ef vel tekst til og sýnt er að jafnlaunastaðallinn hafi raunveruleg áhrif við að útrýma kynbundnum launamun, þá getum við Íslendingar svo sannarlega kynnt þetta nýja verkfæri með stolti fyrir alþjóðasamfélaginu!

Brynhildur Heiðar- og Ómarsdóttir


Greinin birtist upphaflega í 19. júní - ársriti Kvenréttindafélags Íslands 2013.

 

Staðlaráð Íslands    Þórunnartúni 2, 3. hæð, 105 Reykjavík    Kennitala: 591193 2019    Opnunartími    Sími 520 7150 fax 520 7171

Þessi síða notar vefkökur (e. cookies).

Nánari upplýsingar

Samþykkja