Nýjar tækniforskriftir - Bankasamskiptakerfi á tímamótum 18.10.13

 Hermann Þór SnorrasonSameiginleg vefþjónusta banka og sparisjóða hefur fest sig í sessi sem eitt af meginverkfærum fyrirtækja, stofnana, sveitarfélaga og einyrkja í bók-haldssamskiptum við bankana. Á síðast-liðnum árum hefur notkunin breiðst svo ört út að undrun sætir.

Sambankaþjónusta

Umrædd vefþjónusta ber hið lítt þjála nafnIcelandic Online Banking Web Services  eða einfaldlega IOBWS, hvorutveggja tungubrjótur í huga margra. Birtingarmynd vefþjónustunnar í upplýsinga- og bók-haldskerfum gengur gjarnan undir heitinu bankasamskiptakerfi eða sambankaþjónusta. Vefþjónustan gerir bókhaldskerfum kleift að skiptast á upplýsingum til og frá bankaán innskráningar í hefðbundinn netbanka. Þannig má til dæmis sækja yfirlit bankareiknings með því einu að smella á þar til gerðan hnapp í bókhaldskerfi. Á sama hátt er unnt að skoða stöðu innheimtukrafna innan bókhaldskerfisins og breyta kröfum án innskráningar á netinu. Einnig er algengt að bókhaldskerfin sjálf sæki upplýsingar allan sólarhringinn án mannlegrar þátttöku.

Fyrsta uppfærslan

Vinsældir vefþjónustunnar eru slíkar að færslufjöldi og fjárhæðir hafa jafnvel vaxið fram úr netbankanotkun og er svo komið, að upprunaleg hönnun mætir ekki nútíma þörfum fyrirtækja. Þess vegna hafa bankar, hugbúnaðarfyrirtæki, innheimtufyrirtæki og aðrir hagsmunaðilar tekið höndum saman á vettvangi Staðlaráðs við að ná samkomulagi um nýjar tækniforskriftir vefþjónustunnar. Það samkomulag náðist í sumar og fóru tækniforskriftirnar í útgáfuferli í haust þannig að bankar hafa senn tæknilegar forsendur til að smíða nýjar aðgerðir. Um er að ræða fyrstu uppfærsluna frá því að vefþjónustan hóf göngu sína á árunum 2007 og 2008.

Fimm breytingar og ein nýjung

Tækninefndinni bárust fjölmargar tillögur og óskir um tækniforskriftir fyrir t.d. erlendar greiðslur, lánayfirlit, kortayfirlit og margt fleira spennandi. Varð úr að smíða sjö tækniforskriftir, þær fimm fyrstu eiga sér fyrirrennara í fyrstu kynslóð IOBWS og flokkast sem endurbætur:

  • Gengi (endurbætur)
  • Greiðslur (endurbætur)
  • Innheimtukröfur (endurbætur)
  • Milliinnheimta (endurbætur)
  • Rafræn skjöl (ný aðgerð)
  • Yfirlit bankareikninga (endurbætur)
  • Tæknilegar upplýsingar og villuboð (leiðbeiningar)

Með "endurbótum" er samt átt við ný skeyti, en þau eldri standa óhreyfð. Hin nýju eru ríkari að innihaldi, svæðin fleiri og sama gildir um valkosti innan þeirra. Meginástæða þess að endurbætur skipa svo stóran sess á kostnað nýjunga er áðurnefnd útbreiðsla eldri skeyta og uppsöfnuð tækniskuld bankanna vegna þeirra.

Þáttur Staðlaráðs

Ljóst var orðið á árinu 2010 að vaxandi þörf var fyrir umbætur og nýjungar. En sitt er hvað, samvinna og samráð. Því var leitað til Staðlaráðs Íslands sem hlutlauss vettvangs fyrir hugmyndavinnu og skoðanaskipti jafnt samstarfs- sem og samkeppnisaðila. Staðlaráð stofnaði sérstaka tækninefnd FUT um vefþjónustur banka og sparisjóða, auk vinnuhópa undir henni.

Þátttakendur í tækninefndinni eru fulltrúar fjölbreytts notendahóps, hver úr sinni áttinni. Allir endurspegla hvorutveggja, eigin væntingar og þarfir sameiginlegra við-skiptavina sinna. Því má með sanni segja, að viðskiptavinurinn eigi sér marga málsvara sem tala röddu hans.

Þegar tækninefndin hafði lagt línurnar um efnislegt innihald nýrra skeyta var komið að ritstörfunum. Af ýmsum hagkvæmnisástæðum var verkið boðið út. Í því fólst einkum vinna við hönnun og útfærslu skeytanna og ritun tækniforskriftanna, auk tillögu um tæknilega högun byggða á óskum og forsendum tækninefndarinnar.

Kristalskúlan kraumar

Ekki skortir tillögur til frekari framþróunar vefþjónustunnar. Í náinni framtíð er meðal annars horft til hagnýtingar alþjóðlega staðalsins ISO 20002 með hliðsjón af aukinni alþjóðavæðingu innlendra fyrirtækja erlendis og öfugt. Til skemmri tíma litið munu fjármálastofnanirnar eiga nóg með nýsmíði í kjölfar þessara nýju tækniforskrifta á komandi misserum. Næsta skref er að gefa tækniforskriftirnar formlega út, því næst að smíða skeytin í hverjum banka um sig, svo taka hugbúnaðarfyrirtækin skeytin inn í sitt vöruframboð eftir því sem eftirspurnin segir til um. Þá er ótalin markaðssetning, gerð ítarefnis, jafnvel smíði sýniforrita og fjölmargt fleira.

Væntingar fyrirtækja, stofnana og sveitarfélaga eru umtalsverðar og nú er undir fjármálastofnunum komið að bretta upp ermar og hefja smíði samkvæmt nýju for-skriftunum. Tíminn leiðir í ljós hver verður fyrstur að bjóða nýju skeytin.

Þátttakendum í samstarfinu færi ég einlægustu þakkir fyrir mikla og óeigingjarna vinnu. 

Hermann Þór Snorrason, formaður tækninefndar FUT um vefþjónustu banka og sparisjóða.

Staðlaráð Íslands    Þórunnartúni 2, 3. hæð, 105 Reykjavík    Kennitala: 591193 2019    Opnunartími    Sími 520 7150 fax 520 7171

Þessi síða notar vefkökur (e. cookies).

Nánari upplýsingar

Samþykkja