Fylgistaðlar um steinefni og malbik - Leiðbeiningar um framleiðslu á steinefnum og malbiki 18.10.13

Pétur Pétursson

Síðastliðið vor kynnti vinnuhópur á vegum Byggingarstaðlaráðs hagsmunaaðilum frumvörp að fylgistöðlunum ÍST 75 Framleiðsla á malbiki og ÍST 76 Framleiðsla á steinefnum. vinnuhópinn skipuðu Arngrímur Blöndahl hjá Staðlaráði Íslands og Gunnar Bjarnason hjá Vegagerðinni, auk greinarhöfundar. Eftir umsagnarferli og athugasemdir hafa bæði frumvörpin nú verið gefin út sem íslenskir staðlar.

Fylgistaðlar við Evrópustaðla

Flestar aðildarþjóðir evrópsku staðlasamtakanna CEN hafa útbúið leiðbeiningar  til þess að innleiðing Evrópustaðla vegna framleiðslu steinefna og malbiks gangi hnökralaust fyrir sig. Mikilvægt er að slíkar leiðbeiningar séu í gildi í hverju landi þar sem samkomulag er milli framleiðenda og kaupenda og prófunarstofa um hvað felist í gerðarprófunum og eftirliti með framleiðslu steinefna og malbiks. Þetta á við t.d. um val á prófunaraðferðum til að mæla eiginleika steinefna og malbiks og lýsa þeim á fullnægjandi hátt. Hérlendis var farin sú leið að gefa út íslenska fylgistaðla. Eins og heiti staðlanna bera með sér snýr annar staðallinn, ÍST 75, að framleiðslu malbiks og hinn, ÍST 76, að framleiðslu steinefna.

Framleiðsla á steinefnum

Úr yfir 40 prófunaraðferðum er að velja til prófana á steinefnum. Sjö framleiðslustaðlar fjalla um kröfur til steinefna til mismunandi nota, meðal annars í steinsteypu (ÍST EN 12620), bikbundin steinefni (ÍST EN 13043) og óbundin steinefni (ÍST EN 13242). Framleiðslustaðlarnir sem fylgistaðallinn nær til eru settir fram á sambærilegan hátt, en þó eru tilteknar prófunaraðferðir og kröfur þess eðlis að þær henta eingöngu tiltekinni framleiðsluafurð. Sérstakur staðall gildir svo um gerðarprófanir og framleiðslueftirlit og nær hann yfir alla framleiðslustaðlana (ÍST EN 13236).

Viðskiptahindrunum og óvissu rutt úr vegi

Ýmislegt hefur breyst við framleiðslu steinefna með tilkomu Evrópustaðla og kröfu um CE-merkingu byggingarvara. Prófunaraðferðir eru ekki allar þær sömu og áður og framsetning upplýsinga hefur breyst. Einnig hafa tekið gildi skýrar kröfur um gerðarprófanir og framleiðslueftirlit. Það má líta svo á að nú gefist öllum framleiðendum steinefna kostur á að lýsa vöruflokkum sínum á sömu forsendum. Í fylgistaðlinum ÍST 76 um framleiðslu á steinefnum er sett fram í texta og töfluformi hvaða prófunaraðferðir skuli nota hérlendis við gerðarprófanir og framleiðslueftirlit, svo og tíðni prófana við framleiðslu. Fylgistaðallinn auðveldar framleiðendum og kaupendum að uppfylla viðkomandi Evrópustaðla vegna framleiðslu á steinefnum til nota í steinsteypu, bikbundin steinefni og óbundin steinefni. Viðskiptahindrunum og óvissu um efniseiginleika er þar með ýtt úr vegi.

Malbiksframleiðsla

Í staðlinum ÍST 75 Framleiðsla á malbiki er tiltekið hvaða prófanir skuli gera á malbiki með hliðsjón af evrópskum stöðlum, annars vegar gerðarprófanir (ÍST EN 13108-20) og hins vegar prófanir vegna framleiðslueftirlits (ÍST EN 13108-21). Fylgistaðallinn fjallar um framleiðslu tveggja algengustu malbiksgerðanna sem notaðar eru hérlendis, þ.e.a.s. slitlagsmalbiks (ÍST EN 13108-1) og steinríks malbiks (ÍST EN 13108-5). Vakin er athygli á að þrjár prófunaraðferðir sem ekki hafa verið notaðar hérlendis fyrr en á allra síðustu árum, sem sagt hjólfarapróf (ÍST EN 12697-22), slitþolspróf  (ÍST EN 12697-16) og vatnsþolspróf (ÍST EN 12697-12) eru nú hluti af gerðarprófunum fyrir umferðarmiklar götur. Það þýðir að hverja malbiksgerð þarf að prófa með þessum aðferðum á fimm ára fresti. Framleiðslueftirlit verður hins vegar tiltölulega einfalt og að mestu leyti svipað því sem verið hefur. Tíðni prófana er í samræmi við ÍST EN 13108-21.

Sammæli milli framleiðenda og kaupenda

Vegagerðin hefur unnið ötullega að innleiðingu Evrópustaðla vegna framleiðslu steinefna og malbiks, m.a. með gerð leiðbeininga um efnisgæði og efniskröfur, svo og með endurskoðun almennra verklýsinga Vegagerðarinnar (Alverks). Rannsóknasjóður Vegagerðarinnar hefur gert kleift að fylgjast náið með framvindu staðlagerðar fyrir prófanir og framleiðslu steinefna og malbiks og hafa íslenskir fulltrúar í evrópskum fagnefndum náð að hafa áhrif á staðlagerðina.

Fylgistaðlarnir sem hér er lýst stuðla að því að innleiðing evrópskra staðla á þessu sviði sé skýr og að sammæli ríki milli framleiðenda og kaupenda steinefna og malbiks um prófunaraðferðir og kröfur.

Pétur Pétursson, PP-ráðgjöf.

Staðlaráð Íslands    Þórunnartúni 2, 3. hæð, 105 Reykjavík    Kennitala: 591193 2019    Opnunartími    Sími 520 7150 fax 520 7171

Þessi síða notar vefkökur (e. cookies).

Nánari upplýsingar

Samþykkja