Viðtal - Í þágu minni staðlastofnana 10.05.13

Guðrún RögnvaldardóttirFramkvæmdastjóri Staðlaráðs, Guðrún Rögnvaldardóttir, var nýlega kjörin varaforseti Evrópsku staðlasamtakanna CEN. Það gaf tilefni til að forvitnast um þessi staðlasamtök sem Ísland er aðili að og spyrja hvernig nýr varaforseti vill láta til sín taka.

Hvers konar samtök eru CEN og hvernig stendur á því að Íslendingur er kjörinn varaforseti?

CEN, Evrópsku staðlasamtökin, eru samtök staðlastofnana 33 Evrópulanda - ESB og EFTA-landanna auk Króatíu, Tyrklands og Makedóníu. Á vettvangi þeirra er unnið að samningu Evrópustaðla á öllum mögu-legum sviðum nema raftækni, sem Evrópsku rafstaðlasamtökin CENELEC fást við, og fjarskiptatækni sem Evrópsku fjarskiptastaðlasamtökin ETSI sjá um. Forseti og þrír varaforsetar mynda æðstu stjórn samtakanna. Staðlaráð Íslands á fulla aðild að CEN og CENELEC svo það er eðlilegt að fulltrúi Staðlaráðs taki þátt í stjórn samtakanna þegar eftir því er leitað.

Af hverju bauðstu þig fram?


Ég var beðin að gefa kost á mér. Ég hef verið framkvæmdastjóri Staðlaráðs í 15 ár, hef verið virk í starfi innan CEN í yfir 20 ár, auk þess sem ég hef tvisvar átt sæti í stjórn Alþjóðastaðlasamtakanna ISO í tvö ár í senn, og ég var einnig varaforseti CENELEC um fjögurra ára skeið. Ég hef því mikla reynslu og þekkingu á evrópsku og alþjóðlegu staðlastarfi, og vissi að ég nyti trausts fjölmargra. Ég hef beitt mér í þágu minni staðlastofnana innan samtakanna en vissi að nokkrar af þeim stærri styddu mig einnig. Ég vil leggja mitt af mörkum til að efla evrópskt staðlastarf og auka gagnkvæman skilning milli allra sem hlut eiga að máli.

Hvers konar starf er þetta?


Varaforsetaembætti CEN eru þrjú. Einn varaforsetinn fer með yfirstjórn fjármála (Vice-President Finance), annar fer með stefnumótun (Vice-President Policy) og sá þriðji með yfirstjórn staðlastarfsins (Vice-President Technical). Ég gegni síðastnefnda embættinu. Í því felst meðal annars að vera formaður tækniráðs CEN, sem hefur umsjón með öllu tæknilega starfinu og fundar tvisvar á ári. Utan fundanna koma einnig fjölmörg erindi sem varða staðlastarfið og taka þarf afstöðu til. Forseti og varaforsetar CEN mynda einnig, ásamt forseta og varaforsetum CENELEC, svokallaða forsætisnefnd (Presidential Committee), sem fer með yfirstjórn alls sameiginlegs starfs CEN og CENELEC, sem er mjög mikið, enda reka samtökin sameiginelga skrifstofu í Brussel og hafa sameiginlegan framkvæmdastjóra. Forsætisnefndin á einnig í ýmsum samskiptum við þriðju samtökin, ETSI, við framkvæmdastjórn ESB, EFTA og ýmsa fleiri aðila.

Er þetta pólitískt embætti?


Nei, enda eru CEN ekki pólitísk samtök. Sá eða sú sem gegnir embættinu er þó auðvitað í aðstöðu til að hafa áhrif á starfsemi og stefnu CEN. Mér finnst líka skipta máli að fulltrúar minni staðlastofnana geti haft áhrif og láti ekki bara stóru aðilana stjórna sér. Svo er ég meðvituð um að konur hafa látið allt of lítið til sín taka í staðlastarfi og ég vil stuðla að því að auka þátttöku og áhrif þeirra. Ég er fyrsta konan sem gegni þessu embætti, og er jafnframt eina konan sem hefur verið varaforseti CENELEC. Þannig séð er þetta kannski pólitískt.

Hver verða helstu stefnumál þín? Hvernig hyggstu nota kjörtímabil þitt sem varaforseti CEN?


Ég er kjörin til þriggja ára og vil leggja áherslu á að efla enn frekar samstarf CEN og CENELEC, en einnig samstarf við aðra aðila svo sem ETSI, ISO og staðlastofnanir utan Evrópu. Það hefur verið mikið unnið að því að styrkja tengsl stöðlunar við rannsóknir, nýsköpun og þróun, m.a. í tengslum við nýja rannsóknaráætlun ESB (Horizon 2020), og því þarf að halda áfram. Hefðbundið staðlastarf hefur legið undir ámæli fyrir að vera þungt í vöfum og tímafrekt, en sannleikurinn er sá að á síðustu árum hefur tekist að stytta umtalsvert þann tíma sem það tekur að semja Evrópustaðla - meðaltíminn er núna um tvö og hálft ár. Þessari vinnu þarf að halda áfram og ekki síður að kynna þann árangur sem náðst hefur - breyta ímyndinni sem sé. Ég tek við góðu búi frá forvera mínum, en við getum alltaf gert betur og ég vil reyna að virkja betur fulltrúa þeirra landa sem kannski hafa ekki tekið mikinn þátt í starfinu hingað til.

Staðlaráð Íslands    Þórunnartúni 2, 3. hæð, 105 Reykjavík    Kennitala: 591193 2019    Opnunartími    Sími 520 7150 fax 520 7171

Þessi síða notar vefkökur (e. cookies).

Nánari upplýsingar

Samþykkja