Tækniforskriftir - Stuðningur við tækniforskriftir 10.05.13

Til að einfalda innleiðingu á stuðningi við tækniforskriftir fyrir rafræna reikninga (sjá umfjöllun á forsíðu) hefur Fagstaðlaráð í upplýsingatækni (FUT) á síðustu vikum og mánuðum gert eftirfarandi ráðstafanir:

  1. Tækniforskriftir skulu vera rafrænar.
  2. Frjáls og óhindruð dreifing tækni-forskrifta (með eðlilegum fyrirvara um höfundarrétt).
  3. "Gjaldfrjáls" dreifing - Notendur þurfa ekki að greiða fyrir tækni-forskriftir (kostuð dreifing).

Sett hefur verið upp vefsíða þar sem að hugbúnaðarhús og aðrir geta sannreynt að viðskiptaskjöl sem byggja á tækniforskriftum séu efnislega rétt.

Með þessu eru stór skref stigin í átt því að gera innleiðingu tækniforskrifta þægilega og hagkvæma fyrir viðskipta-aðila óháð stærð og umfangi. 

Breytinga að vænta
Nú þegar hefur stuðningur við tæknifor-skriftir fyrir rafræna reikninga verið byggður inn í helstu viðskiptakerfi sem nýtt eru af ríki og atvinnulífi. Enn fremur er hægt að miðla skjölum út fyrir landsteinana með vissu um að erlend viðskiptakerfi túlki þau rétt. Þar sem skjölin eru efnislega samræmd skiptir ekki máli með hvaða hætti þau flæða á milli viðskiptaaðila. Miðlun rafrænna reikninga er enn að slíta barnsskónum en gera má ráð fyrir því að á næstu 1-2 árum þróist hún til samræmis við kröfur atvinnulífsins þannig að allir viðskiptaaðilar verði tengdir saman.

Opinberar stofnanir og sveitarfélög hafa þegar stigið stór skref í átt að rafvæðingu viðskiptaferla. T.a.m. hefur Reykjavíkurborg nú þegar náð því markmiði að taka á móti yfir 30% reikninga á rafrænu formi. Einnig eru útsendir reikningar þeirra að verða rafrænir. Fram hefur komið að borgin telur hagræðinguna skila að minnsta kosti 1.000 kr. á hvern móttekinn reikning svo ljóst er að mikil tækifæri eru til hagræðingar. Einnig má reikna með að fjármála- og efnahagsmálaráðuneytið tilkynni fyrir hönd ríkisins, að allir reikningar til ríkisstofnana vegna kaupa á vöru eða þjónustu, skuli vera sendir með rafrænum hætti. Einnig fjölgar sífellt þeim fyrirtækjum sem setja sér það markmið að fjarlægja ALLAN pappír og senda og taka við öllum skjölum með rafrænum hætti.

Til að liðka enn frekar fyrir á markaðnum hefur Atvinnuvega- og nýsköpunar-ráðuneytið ákveðið að endurskoða reglugerð nr. 598 frá 1998, sem tekur á útgáfu og miðlun rafrænna reikninga með það að markmiði að skýra betur ábyrgð og verksvið aðila. Úthýsing einstakra þjónustuþátta verður auðvelduð og tekið á stöðu aðila sem ekki eru bókhaldsskyldir en vilja senda eða taka við rafrænum reikningum. Öruggt má telja að í framhaldi af reglugerðinni komi fram ýmsar nýjar tegundir þjónustu sem munu liðka enn frekar fyrir á markaðnum og aðstoða þar með við að ná kostnaði enn frekar niður í viðskiptum. Tilkoma reglugerðarinnar gerir kleift að nánast útrýma útgáfu pappírsreikninga hjá einyrkjum og smærri aðilum og verður bæði einkageiranum og hinum opinbera mikil hvatning til dáða og góðra verka.

Viðskiptatækifæri
Það grettistak sem lyft hefur verið í útgáfu tækniforskrifta staðfestir að staðlar skapa í reynd markaði fyrir ýmis konar þjónustu og fæða af sér tækifæri til hagræðingar í rekstri og sóknar við atvinnusköpun og ný viðskiptatækifæri. Reikningurinn er bara fyrsta skeytið af mörgum sem munu skapa svipuð tækifæri á næstu árum. Allir sem hafa hagsmuna að gæta eru hvattir til að fylgjast með og taka þátt í starfi vinnuhópa og einnig að nýta sér staðla og tækni til aukinnar velferðar.

Staðlaráð Íslands    Þórunnartúni 2, 3. hæð, 105 Reykjavík    Kennitala: 591193 2019    Opnunartími    Sími 520 7150 fax 520 7171

Þessi síða notar vefkökur (e. cookies).

Nánari upplýsingar

Samþykkja