Hugtök - Samræmismat 10.05.13

Samræmismat er ferli sem er viðhaft til að sýna fram á að vara, þjónusta eða kerfi uppfylli tilgreindar kröfur sem langoftast er að finna í Sveinn1stöðlum.

Með samræmismati er leitast við að sýna fram á að tilgreindar kröfur séu uppfylltar. Samræmismat hefur ýmsa kosti í för með sér:

 • Neytandinn fær meira traust á vöru eða þjónustu sem um ræðir.
 • Fyrirtæki getur nýtt sér samræmismatið við að ná samkeppnisforskoti.
 • Samræmismat hjálpar stjórnvöldum við að tryggja að heilsuverndar-, öryggis- og um-hverfisaðstæður séu í lagi og uppfylli lágmarkskröfur. CE- merkið er þar ágætt dæmi.

Þrjú hugtök tengd samræmismati
Meginaðferðir við samræmismat eru vottun, skoðun og prófun.

 • Vottun (e. certification)
  Vottun er gerð af óháðum aðila sem gefur út skriflega staðfestingu (vottorð) um að varan, þjónustan eða kerfið sem um er að ræða uppfylli tilgreindar kröfur. Mörg fyrirtæki hafa fengið gæðastjórnunarkerfi sitt vottað samkvæmt staðlinum ÍST EN ISO 9001. Það er leið til þess að sýna umheiminum fram á að fyrirtækið hafi komið sér upp virku gæðastjórnunarkerfi sem uppfyllir kröfur staðalsins.
 • Prófun (e. testing)
  Prófun er notuð til að ákvarða eiginleika tiltekins efnis eða vöru og er venjulega framkvæmd af prófunarstofu. Sem dæmi um slíkt má nefna prófanir (rannsóknir) á blóð-sýnum til að greina alkóhólmagn í blóði.
 • Skoðun (e. inspection)
  Skoðun er ástandskönnun sem gerð er með reglulegu millibili á vöru til að tryggja að hún uppfylli tilgreind viðmið.
  Slökkvitæki á til dæmis að skoða reglulega til að tryggja að þau séu örugg og virki eins og til er ætlast. Bílar og önnur farartæki eru einnig skoðuð reglulega.

Samhæfing og gagnkvæmar viðurkenningar
Alþjóðlegu staðlasamtökin ISO hafa gefið út staðla til að stuðla að því að samræmismat sé unnið á eins samhæfðan hátt og kostur er. Í stöðlunum er eru settar fram kröfur til samræmismats mismunandi aðila eins og til prófunarstofa, skoðunarstofa eða vottunarstofa.

Ávinningurinn af því að samhæfa starfsemi við samræmismat getur verið mikill og stuðlað að auknum viðskiptum milli landa. Allskonar vottorð og skýrslur sem eru af-rakstur samræmismats í framleiðslulandinu fá þá gildi í því landi sem flytur inn tiltekna vöru. Ef til dæmis það land sem varan er flutt til tekur ekki mark á prófunarskýrslu fyrir vöruna frá framleiðslulandinu mun þurfa að endurtaka slíkar prófanir í inn-flutningslandinu, sem kostar bæði tíma og peninga. Lykillinn að því að einfalda samræmismat í viðskiptum milli landa er að fyrir hendi séu samningar og gagnkvæmar viðurkenningar á samræmismati, prófunum, skoðunum og vottunum.

Sveinn V. Ólafsson, verkfræðingur

Staðlaráð Íslands    Þórunnartúni 2, 3. hæð, 105 Reykjavík    Kennitala: 591193 2019    Opnunartími    Sími 520 7150 fax 520 7171

Þessi síða notar vefkökur (e. cookies).

Nánari upplýsingar

Samþykkja