Hvernig má hagnast á stöðlum og staðlastarfi? - Morgunráðstefna 7. desember 03.12.12

Hvernig geta lítil og meðalstór fyrirtæki bætt hag sinn með notkun staðla og þátttöku í staðlastarfi? Það verður umfjöllunarefnið á stuttri ráðstefnu á Grand Hótel þann 7. desember. Ráðstefnan byrjar kl. 9 og endar með hádegisverði kl. 12:20. Forsvarsmenn fyrirtækja eru hvattir til að skrá sig til þátttöku á vef Staðlaráðs, www.stadlar.is.

Efni ráðstefnunnar
Á ráðstefnunni verður fólk úr íslensku atvinnulífi og fólk frá evrópsku staðla-samtökunum CEN , CENELEC og NORMA-PME. Útlistað verður hvernig staðlar geta auðveldað fyrirtækjum sókn á nýja markaði og bætt hag þeirra í vaxandi samkeppni. Einnig verður fjallað um hvaða kosti fulltrúar lítilla og meðalstórra fyrirtækja eiga þegar kemur að þátttöku í staðlastarfi og hvernig slík þátttaka getur bætt hag fyrirtækjanna.

Tekið verður fyrir:

  • Hvernig staðlar greiða fyrir innleiðingu nýrrar tækni og nýsköpun og tryggja að vörur, íhlutir og þjónusta sem mismunandi fyrirtæki veita séu gagnkvæm og samhæfð.
     
  • Hvernig staðlar nýtast við að opna markaði með því að gera neytendum kleift að bera saman tilboð frá mismunandi birgjum og auðvelda þar af leiðandi litlum og ungum fyrirtækjum að keppa við stærri og rótgrónari fyrirtæki.
     
  • Hvernig staðlar einfalda tilveru fyrirtækja og neytenda og auka jafnframt öryggi þeirra. Staðlar nýtast vel til að bæta afköst, stuðla að bættri heilsu og auknu öryggi neytenda og starfsmanna og gera fyrirtækjum ennfremur auðveldara að fylgja viðeigandi lögum og reglum.

Aðeins upphafið
Mikill meiri hluti íslenskra fyrirtækja eru lítil og meðalstór, með starfsmannafjölda á bilinu 10 - 250. Því eru þessi fyrirtæki í veigamiklu hlutverki í íslenska hagkerfinu. Sama er uppi á teningnum í Evrópu. Þar eru næstum 99% fyrirtækja innan þessara marka og innan þeirra starfa um það bil 66% af heildarvinnuaflinu.

Ofangreind ráðstefna er þáttur í verkefni sem gengur út á að finna leiðir til að efla hag lítilla og meðalstórra fyrirtækja með aukinni notkun staðla innan þeirra og þátttöku í staðlasamstarfi.

Staðlaráð Íslands    Þórunnartúni 2, 3. hæð, 105 Reykjavík    Kennitala: 591193 2019    Opnunartími    Sími 520 7150 fax 520 7171

Þessi síða notar vefkökur (e. cookies).

Nánari upplýsingar

Samþykkja