Umferðaröryggi - Alþjóðlegur staðall gegn umferðarslysum 26.09.12

Gert er ráð fyrir að alþjóðlegur staðall, sem ætlað er að sporna gegn umferðarslysum, komi út í desember á þessu ári á vegum Alþjóðlegu staðlasamtakanna ISO.

Metnaðarfull markmið

Á vef Umferðarstofu segir að íslensk stjórnvöld hafi sett sér þau langtímamarkmið "að fjöldi látinna í umferðinni á hverja 100.000 íbúa verði ekki meiri en það sem lægst gerist hjá öðrum þjóðum. Meðalfjöldi látinna í umferð síðustu 10 ár er um 6,6 á hverja 100.000 íbúa. Til samanburðar má nefna að í þeim löndum sem náð hafa hvað bestum árangri á sama tímabili létust um sex af hverjum 100.000 íbúum í umferðinni. Ísland er nálægt Finnum hvað þetta varðar, en þeir eru með svipaða dánartíðni og við og eru að mörgu leyti í svipaðri stöðu, með dreifbýlt land þar sem ungt fólk fær ökuréttindi snemma og einkabíllinn er allsráðandi samgöngutæki."

Hamfarir af mannavöldum
Umferðarstofa segir að finna megi mælikvarða sem væru Íslendingum hagstæðari, en fjöldi banaslysa hér á landi væri samt sem áður óásættanlegur. Á heimsvísu hefur ástandinu í umferðaröryggismálum verið líkt við hamfarir af mannavöldum.Yfir 1,3 milljónir látast í umferðarslysum árlega og 20-50 milljónir slasast alvarlega. Samkvæmt læknatímaritinu Lancet er gert ráð fyrir að árið 2030 verði meiðsli af völdum umferðarslysa orðin fimmta algengasta dánarorsök manna. Meiðsli í umferðarslysum eru nú þegar algengasta dánarorsökin meðal fólks í aldurshópnum 10 - 24 ára.

Nýr staðall en kunnuglegur
Staðallinn sem væntanlegur er í lok þessa árs mun líklega heita fullu nafni ISO 39001 Stjórnkerfi umferðaröryggis - Kröfur ásamt leiðbeiningum um notkun. Heitið er kunnuglegt þeim sem þekkja til ISO 9000-gæðastjórnunarstaðlanna og umhverfisstjórnunarstaðalsins ISO 14001, enda mun hinn nýi staðall taka mið af þeim stöðlum. Staðalinn verður hægt að innleiða í margbreytilegum rekstri þar sem samgöngur um vega-kerfi koma við sögu. Það felur einnig í sér að hægt verður að votta eftir staðlinum, á sambærilegan hátt og gæðastjórnunar-kerfi og umhverfisstjórnunarkerfi eru vottuð samkvæmt annars vegar ISO 9001 og hins vegar ISO 14001.

Hinn mannlegi tollur sem umferðarslys taka er hár, eins og fram kemur í tölunum sem hér hafa verið nefndar, og hann er sárastur. Vert er einnig að hafa í huga hinn efnahagslega toll. Vonandi reynist ISO 39001 jafn vel og þeir gamalgrónu stjórnkerfisstaðlar sem hafa verið notaðir í áratugi á sviði umhvefis- og gæðamála. Þeim mun fyrr náum við settu marki og getum sett okkur ný og metnaðarfyllri markmið til að draga úr slysum í umferðinni.

Staðlaráð Íslands    Þórunnartúni 2, 3. hæð, 105 Reykjavík    Kennitala: 591193 2019    Opnunartími    Sími 520 7150 fax 520 7171

Þessi síða notar vefkökur (e. cookies).

Nánari upplýsingar

Samþykkja