Nýtt verklag - Afgreiðsla evrópskra staðlafrumvarpa 26.09.12

Aðalfundur Staðlaráðs Íslands, sem fram fór 30. maí síðastliðinn, samþykkti að breyta verklagi við afgreiðslu evrópskra staðlafrumvarpa. Frá 1. september hefur Staðlaráð Íslands ákveðið sitja hjá við afgreiðslu evrópskra staðlafrumvarpa, nema fram komi óskir um annað.

Forsagan
Staðlaráð gerðist aðili að CEN og CENELEC árið 1988. Því fylgir réttur til að taka þátt í öllu staðlastarfi á vegum samtakanna og skylda til að staðfesta alla evrópska staðla (EN) sem íslenska staðla (ÍST EN).

Áður en staðall er samþykktur sem EN hefur frumvarp hans farið í gegnum umsagnarferli meðal allra aðildarlandanna, þar sem gefst kostur á að koma á framfæri athugasemdum við innihald frumvarpsins, og er þá jafnframt spurt um hvort frumvarpið teljist henta sem evrópskur staðall. Síðan kemur frumvarpið til lokaatkvæðagreiðslu meðal allra aðila, þar sem eingöngu er hægt að styðja frumvarpið eða hafna því (engar athugasemdir eru leyfðar á því stigi).

Sú afstaða var tekin strax í upphafi aðildar Staðlaráðs að samþykkja öll frumvörp nema fram kæmu óskir um annað frá íslenskum hagsmunaaðilum. Rökin fyrir því voru að við Íslendingar treystum því að vel hefði verið að verki staðið við samningu hvers frumvarps og vildum því veita því brautargengi þótt okkur skorti sjálf sérfræðiþekkingu til að hafa á því skoðun. Þessi afstaða var kynnt þeim innlendu hagsmunaaðilum sem höfðu áhuga á að fylgjast með staðlastarfinu.

Frá þessu voru þó undantekningar: FUT hafði til dæmis til að byrja með þá afstöðu að sitja hjá ef ekki var um þátttöku eða ákveðna afstöðu að ræða, en síðar var ákveðið að samræma verklagið og samþykkja einnig öll frumvörp á sviði FUT, nema fram kæmu óskir um annað. Sömuleiðis hefur lengi verið setið hjá við afgreiðslu frumvarpa á sviði járnbrauta og geim- og flugvélaiðnaðar, enda afar takmarkaðir íslenskir hagsmunir á þeim sviðum.

Breytt viðhorf
Á síðustu árum hefur þeirri skoðun vaxið fylgi innan CEN og CENELEC að það verklag sem fylgt hefur verið, og sem margir af nýrri meðlimum samtakanna (einkum Mið- og Austur-Evrópulönd) hafa einnig viðhaft, gefi skakka mynd af raunverulegum stuðningi við einstök staðlafrumvörp. Hvatt hefur verið til þess að þegar svo háttar til að ekki sé fyrir hendi sérfræðiþekking eða áhugi á viðfangsefni frumvarpsins þá beri að sitja hjá við atkvæðagreiðsluna, fremur en að samþykkja.

Hafa verður í huga að til að frumvarp sé samþykkt sem Evrópustaðall þarf það að hljóta 71% greiddra atkvæða, og telst hjáseta þá ekki með. Atkvæðavægi er ekki jafnt meðal aðilanna, heldur fer eftir ákvæðum NICE-samkomulags ESB, og hafa t.d. Ísland og Malta 3 atkvæði hvort, en Bretland, Frakkland, Þýskaland, Ítalía og nú síðast Tyrkland hafa 29 atkvæði hvert.

Stjórn Staðlaráðs fjallaði um málið á fundi sínum 17. apríl síðastliðinn og taldi ekkert því til fyrirstöðu að breyta verklagi Staðlaráðs hvað þetta varðar, en gæta yrði þess að kynna breytinguna vel fyrir aðilum Staðlaráðs og öðrum hagsmunaaðilum sem eru að fylgjast með staðlavinnu og þekkja verklagið. Þeir munu þá framvegis þurfa að láta vita ef þeir vilja að frumvarp sé samþykkt, en eins og er þurfa þeir eingöngu að láta vita ef þeir vilja ekki að það sé samþykkt.

Staðlaráð Íslands    Þórunnartúni 2, 3. hæð, 105 Reykjavík    Kennitala: 591193 2019    Opnunartími    Sími 520 7150 fax 520 7171

Þessi síða notar vefkökur (e. cookies).

Nánari upplýsingar

Samþykkja