Merkilegt - Alþjóðleg tákn og merki 26.09.12

Althjodleg TaknVið setjumst undir stýri og keyrum bíl nokkurn veginn óhikað hvar sem við erum stödd í heimnum. Líka heima. Við rötum um flugstöðvar og járnbrautarstöðvar þótt við séum að koma þar í fyrsta sinn. Við reiknum með og ætlumst til að það gangi snurðulaust fyrir sig. Í raun erum við að ætlast til þess að merkin sem leiðsegja okkur og leiðbeina séu okkur skiljanleg um allan heim. Það eru þau alla jafna og sum eru mjög kunnugleg, boðmerki, bannmerki, viðvörunarmerki, upplýsingarmerki.

Merkin
Öryggismerkin samanstanda af lit, lögun og myndrænu tákni. Litir og lögun gefa til kynna hvers konar merki er um að ræða, táknið segir til um hvað beri að varast, gera, hvað megi gera eða hvað megi ekki gera. Viðvörunarmerki eru þríhyrningslaga með svörtu tákni á gulum fleti, bannmerki eru hringlaga, yfirleitt með rauðum jaðri og gulum fleti, boðmerki eru hringlaga með hvítu tákni á bláum fleti, upplýsingamerki ferhyrnd með hvítu tákni á bláum fleti. En við þurfum ekki orð til að átta okkur á merkjunum, við skiljum þau yfirleitt umsvifalaust um leið og við sjáum þau, jafnvel þótt við séum að sjá þau í fyrsta skipti.

Ávöxtur samstarfs og samvinnu
Til þess að merkin skiljist um allan heim þarf alþjóðlega samvinnu. Enginn heimshluti, ekkert ríki getur eitt og sér gert slík merki, heldur þarf til þess framlag frá mörgum ríkjum úr öllum byggðum álfum heimsins. Þrenn alþjóðleg staðlasamtök starfa í heiminum. Þau eru Alþjóðlega raftækniráðið, IEC, Alþjóða fjarskiptasambandið, ITU og Alþjóðlegu staðlasamtökin, ISO. Líkt og nöfnin gefa til kynna, þá vinnur IEC á sviði rafmagns og ITU á sviði fjarskipta. Alþjóðlegu staðlasamtökin ISO vinna hins vegar á almennu sviði, það er öðrum en þeim sem ITU og IEC láta sig varða, þótt verkefni þessara samtaka geti vissulega skarast og þau eigi í samvinnu sín á milli. Aðildarlönd Alþjóðlegu staðlasamtakanna ISO eru 164. Það er á vegum sérstakrar tækninefndar þeirra samtaka sem staðlar um hin alþjóðlegu merki eru samdir, ISO/TC 145 Graphical symbols. Nefndin hefur starfað frá því árið 1970. Fjörutíu og átta lönd fylgjast með eða taka þátt í starfi nefndarinnar.

Staðlaráð Íslands    Þórunnartúni 2, 3. hæð, 105 Reykjavík    Kennitala: 591193 2019    Opnunartími    Sími 520 7150 fax 520 7171

Þessi síða notar vefkökur (e. cookies).

Nánari upplýsingar

Samþykkja