Jafnlaunastaðall - Brautryðjendaverk í jafnréttisbaráttunni 26.09.12

Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra

Á kvenréttindadaginn 19. júní síðastliðinn var kynnt frumvarp að staðlinum ÍST 85 Jafnlaunakerfi - Kröfur og leiðbeiningar. Meðal þeirra sem tóku til máls á kynningunni var Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra. Hún fullyrti að gerð staðalsins væri brautryðjendaverk í jafnréttisbaráttunni. Í máli hennar kom fram að á kvennafrídaginn 24. október 2008 undirrituðu forsvarsmenn ASÍ og SA ásamt þáverandi félagsmálaráðherra sameiginlegt erindi til Staðla-ráðs um að gerður yrði staðall um jafnlaunakerfi.

Brot úr ræðu forsætisráðherra
"Ljóst varð að verkefnið var að smíða staðal um launajafnrétti sem væri að formi til sambærilegur öðrum stöðlum eins og gæðastjórnunarstöðlum eða um-hverfisstöðlum. Með öðrum orðum; jafnlaunastaðallinn yrði vottunarhæfur á nákvæmlega sama hátt og aðrir staðlar.

Hin sameiginlega ákvörðun mín og ASÍ og SA um að óska eftir því að verkið yrði unnið innan vébanda Staðlaráðs þýddi einnig að það hlaut að lúta vinnureglum ráðsins. Það þýddi að Staðlaráð bauð fjöldamörgum aðilum sem það taldi geta haft áhuga á staðlinum eða hagsmuni af honum til að taka sæti í svokallaðri tækninefnd, sem í raun bar ábyrgð á samningu staðalsins.

Flestir svöruðu boði Staðlaráðs og í desember 2008 var haldinn fyrsti fundur tækninefndarinnar. Þessi hópur sem tekið hefur þátt í gerð staðalsins er því mun fjölmennari og úr mun fleiri áttum en ef eingöngu hefði verið um fulltrúa þessara þriggja frumkvæðisaðila að ræða.

Þegar hér var komið sögu mátti öllum vera ljóst að sá tímarammi sem verkinu var gefinn í bráðabirgðaákvæði jafnréttislaganna, þ.e. rétt rúmlega ár, gat alls ekki staðist. Samkvæmt upplýsingum Staðlaráðs sjálfs væri það ekki óalgengt að jafnvel staðla sem væru tiltölulega einfaldir að uppbyggingu tæki um það bil þrjú ár að smíða. Þar skiptir auðvitað mestu að staðallinn byggir á sátt allra þeirra aðila sem að verkinu koma.

Og núna stöndum við hér með frumvarp að staðli í höndunum. Í samræmi við hversu lýðræðislega er staðið að gerð staðalsins er með þessum fundi opnað fyrir umsagnarferli, þar sem allir, sem áhuga kunna að hafa, geta kynnt sér frumvarpið og sent inn athugasemdir og ábendingar.

Tækninefndin mun vinna úr þessum umsögnum og gefa staðalinn endanlega út í desember næstkomandi. Þá hefst hin eiginlega vegferð staðalsins til þeirra sem áhuga hafa á því að innleiða hann.

Ég bind gríðarlega miklar vonir við íslenskt atvinnulíf að þessu leyti, að það sýni þá framsýni, dug og djörfung að taka þessu verkfæri fagnandi og hrinda því í notkun."

Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra.

Staðlaráð Íslands    Þórunnartúni 2, 3. hæð, 105 Reykjavík    Kennitala: 591193 2019    Opnunartími    Sími 520 7150 fax 520 7171

Þessi síða notar vefkökur (e. cookies).

Nánari upplýsingar

Samþykkja