ISO 26000 - Fagnaðarefni að fá staðal um samfélagsábyrgð 26.09.12

Á síðustu árum hefur áhugi fyrirtækja á samfélagslegri ábyrgð farið vaxandi. Regina Asvaldsdóttir  Alþjóðavæðing fyrirtækja hefur kallað á nauðsynlegar aðgerðir í þágu verkafólks á láglaunasvæðum en einnig hefur vaxandi áhersla og aðhald frá almenningi varðandi umhverfisvernd haft áhrif á þróunina. 

Skilgreining á samfélagslegri ábyrgð

Það eru margvíslegar skilgreiningar á hugtakinu samfélagsábyrgð fyrirtækja, en í sinni einföldustu mynd má segja að fyrirtæki sýni samfélagslega ábyrgð þegar það ákveður að bæta starfshætti og leggja meira til samfélagsins en því er skylt samkvæmt lögum.

Löng hefð er fyrir því að fyrirtæki styrki ýmiskonar starfsemi á sviði menningar, íþrótta og góðgerðarmála. Hugtakið samfélagsábyrgð hefur hinsvegar þróast frá því að snúast aðallega um styrkjamál yfir í að snerta alla þætti í starfsemi fyrirtækisins. Samfélagsábyrgð snýst því ekki eingöngu um hvernig fyrirtækin ráðstafa hagnaði heldur einnig hvernig þau starfa.

ISO 26000 og fleiri verkfæri
En hvaða stuðningur og hvaða verkfæri standa íslenskum fyrirtækjum til boða ef þau vilja innleiða stefnu um samfélagsábyrgð? 

Sex íslensk fyrirtæki hafa sameinast um að setja á stofn miðstöð um samfélagsábyrgð, Festu, sem var stofnuð síðla árs 2011. Stofnaðilar Festu eru Alcan, Landsbankinn, Landsvirkjun, Íslandsbankinn, Síminn og Össur. Markmiðið með stofnun miðstöðvarinnar er að miðla upplýsingum til fyrirtækja um viðurkenndar starfsaðferðir á sviði samfélagsábyrgðar, efla umræðu um málefnið á Íslandi og hvetja til rannsókna. 
Global Compact er sáttmáli Sameinuðu þjóðanna um samfélagsábyrgð. Fyrir-tæki og stofnanir sem skrifa undir sáttmálann skuldbinda sig til að vinna að samfélagsábyrgð á sviði mannréttinda, vinnuverndar, umhverfismála og gegn spillingu. Átta íslensk fyrirtæki og/eða félög eru aðilar að Global Compact. Alls eru á sjöunda þúsund fyrirtækja aðilar að Global Compact á heimsvísu og á annað þúsund félagasamtaka og stofnana. Fyrirtækin senda árlega skýrslu til Sameinuðu þjóðanna þar sem þau gera grein fyrir því hvernig þau hafa unnið að samfélagsábyrgð á árinu. Mörg fyrirtæki taka sín fyrstu skref í vinnu að samfélagsábyrgð með því að gerast aðilar að Global Compact.

Annað verkfæri er skýrslugerð samkvæmt svonefndum GRI index á vegum Global Reporting Initiative. Nýlega samþykkti ríkisstjórn Íslands þingsályktunartillögu um eflingu græns hagkerfis. Margar áhugaverðar leiðir koma fram í tillögunni, meðal annars að ráðuneyti og fyrirtæki ríksins skrái aðgerðir sínar í þágu samfélagsábyrgðar samkvæmt aðferðafræði GRI. Stefnt er að því að 80% þeirra skili slíkum ársskýrslum fyrir árið 2014. 
Sérstakur staðall um samfélagsábyrgð, ISO 26000, sem kom út haustið 2010 eftir margra ára vinnu ótal einstaklinga á mismunandi menningarsvæðum er mjög mikilvægt verkfæri til að styðjast við þegar móta á stefnu um samfélagsábyrgð og innleiða slíka stefnu í fyrirtæki eða stofnanir.

ISO 26000 skiptist í eftirtalda málaflokka:

  • Stjórnunarhætti 
  • Sanngjarna viðskiptahætti
  • Starfsumhverfi og vinnuvernd 
  • Mannréttindi og minnihlutahópa 
  • Umhverfismál
  • Neytendamál 
  • Samfélagsþátttöku og þróun

Innan hvers málaflokks er farið dýpra inn á hvert svið og tekin dæmi um verkefni eða viðfangsefni. Gert er ráð fyrir að fyrirtæki, stofnanir og félagasamtök sem vilja styðjast við staðalinn aðlagi leiðbeiningarnar að eigin starfsumhverfi, þar sem viðmiðin taka mið af mismunandi menningarheimum og starfsgreinum. Staðallinn er leiðbeinandi og ekki er hægt að fá vottun samkvæmt honum. 

Kemur út á íslensku
Um þessar mundir er unnið að þýðingu á staðlinum á vegum Staðlaráðs Íslands og verður vonandi hægt að ljúka þeirri vinnu á árinu 2012. Það er mikið fagnaðarefni að Staðlaráð hafi ráðist í þessa vinnu og ekki laust við að eftirvænting ríki hjá þeim fyrirtækjum og stofnunum sem hafa sett sér markmið um að innleiða stefnu um samfélagsábyrgð.

Regína Ásvaldsdóttir, framkvæmdastjóri Festu, miðstöðvar um samfélagsábyrgð fyrirtækja.

Staðlaráð Íslands    Þórunnartúni 2, 3. hæð, 105 Reykjavík    Kennitala: 591193 2019    Opnunartími    Sími 520 7150 fax 520 7171

Þessi síða notar vefkökur (e. cookies).

Nánari upplýsingar

Samþykkja