Hreint vatn - Alþjóðlegir staðlar gegn vatnsskorti 26.09.12

Brúará

Nær 900 milljónir manna hafa ekki aðgang að hreinu drykkjarvatni og meira en 1,5 milljónir barna undir fimm ára aldri deyja árlega vegna sjúkdóma af völdum mengaðs vatns og skorts á hreinlæti. Áætlað hefur verið að fækka megi sjúkdómum í heiminum um að minnsta kosti 9% og dauðsföllum um 6% með betra drykkjarvatni, auknu hreinlæti og bættum hollustuháttum.

Mannréttindi að eiga aðgang að hreinu vatni
Í sumar boðuðu Alþjóðlegu staðlasamtökin ISO til vinnuráðstefnu í Japan. Verkefni ráðstefnunnar var að finna út hvað hægt væri að leggja af mörkum með stöðlum til þess að bæta vatnsbúskap heimsins. Yfir 150 manns tóku þátt í ráðstefnunni. Markmiðin voru að
auka vitund um staðlastarf í sambandi við vatn og hvernig staðlar geta nýst við að breiða út tækni, þekkingu, aðferðafræði og lausnir á heimsvísu, leggja til og kanna stöðlunarverkefni sem gætu stuðlað að bættum vatnsbúskap, forgangsraða verkefnum og búa til áætlun um gerð staðla sem varða vatn.

Af yfir 19100 alþjóðlegum stöðlum sem eru í gildi, snerta um 550 vatn með beinum hætti, drykkjarvatn, frárennslisvatn, áveituvatn og fleira tengt vatni, svo sem lagnir, mælingar og vatnskerfi. Þessi fjöldi staðla um vatn þarf ekki að koma á óvart. Vatn er undirstaða fyrir líf mannsins og annarra lífvera á jörðinni. Í þúsaldarmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna var viðurkennt að aðgangur að hreinu vatni væri grundvallarmannréttindi.

Tillögur og forgangsröðun
Yfir eitt hundrað hugmyndir komu fram á ráðstefnunni í Japan. Þær voru flokkaðar í fjórtán flokka sem síðan var forgangsraðað. Fyrstu fimm voru þessir:

  • Bregðast við tapi í veitukerfum og vatnsleka.
  • Staðlar um endurnýtingu vatns.
  • Staðlar um meðferð og nýtingu skólpeðju.
  • Staðlar um vatnsveitustjórnun á flóðasvæðum.
  • Staðlar um stjórnun búnaðar og eigna í tengslum við vatnsveitu.

ISO hefur sett á stofn vinnuteymi sem ætlað er að fylgja eftir tillögunum sem fram komu á ráðstefnunni. Teyminu er jafnframt ætlað að veita ráð í sambandi við áframhaldandi þróun ISO-staðla sem þegar hafa verið gefnir út og varða vatn. Áætlað er að teymið gefi út lokaskýrslu um verkefnið í byrjun næsta árs.

Staðlaráð Íslands    Þórunnartúni 2, 3. hæð, 105 Reykjavík    Kennitala: 591193 2019    Opnunartími    Sími 520 7150 fax 520 7171

Þessi síða notar vefkökur (e. cookies).

Nánari upplýsingar

Samþykkja