Styrkflokkun á timbri - Norrænn timburstaðall á íslensku 15.11.11

Eiríkur Þorsteinsson MinniSamnorrænn staðall sem fjallar um styrkflokkun á timbri fyrir mannvirki er kominn út á íslensku. Leitast var við að hafa staðalinn þannig að allir sem þekkja til efnistækni í timbri ættu auðvelt með að beita honum við flokkun.

Staðallinn heitir fullu nafni ÍST INSTA 142:2009 Norrænar reglur fyrir útlitsstyrkflokkun á timbri í burðarvirki.  Um er að ræða endurskoðaða útgáfu á stað-linum ÍST INSTA 142:1997.

Styrkflokkun og útlitsflokkun
Margar reglur eru til um flokkun á timbri, en slíkri flokkun má í stórum dráttum skipta upp í annars vegar útlitsflokkun og hins vegar styrkflokkun.  

Flokkunarreglurnar kallast einu nafni norrænar T-reglur. Timbur sem er flokkað samkvæmt þeim er kallað T-timbur eða LT-timbur.
Styrkflokkarnir skiptast í T3, T2, T1 og T0 í lækkandi röð miðað við styrk. Styrkflokkar fyrir límtré skiptast í LT40, LT30, LT20, og LT10 í lækkandi röð eftir styrk.

Timbur sem er ætlað fyrir sperrur, bjálka eða stoðir er hægt að flokka með vél sem vinnur sjálfvirkt eða með því að meta efnið sjónrænt. Markmiðið með styrkflokkun er að flokka timbur í réttan styrkflokk þannig öryggi mannvirkis sé tryggt og að nýting efnisins verði sem best.

Vélflokkun á timbri vegna styrks mælir stíf-leikann í timbrinu og er timbrið flokkað samkvæmt honum. Vélflokkun er framkvæmd í mörgum sögunarmyllum á Norðurlöndum en hér á landi er hún ekki notuð vegna mikils kostnaðar. Því er staðallinn ÍST INSTA 142 sérstaklega heppilegur við flokkun á Íslandi. Þegar timbur er vélflokkað þarf einnig að meta ýmsa aðra efnisgalla sem vélin getur ekki greint, eins og til dæmis fúa, misvöxt eða göt eftir skordýr. Styrkur vélflokkaðs efnis er merkt C14, C18, C24 og C30 sem er sterkasti flokkurinn.

Útlitsflokkun á styrkflokkuðu timbri samkvæmt staðlinum ÍST INSTA 142 byggir á því að meta vöxt efnisins og það sem getur dregið úr styrk þess, eins og til dæmis kvisti og sprungur. Einnig þarf að taka tillit til þess hvort fúi eða aðrir efnisgallar séu í timbrinu.
Útlitsflokkun á timbri fyrir til dæmis glugga, veggklæðningar eða gólfborð er gerð sjónrænt og þá eftir sérstökum reglum sem hafa ekkert með burð að gera.

CE-merkingar
Eftir 1. janúar 2012 á allt timbur sem notað er í burðarvirki að vera CE-merkt samkvæmt ÍST EN 14081. Upplýsingar um CE-merkingu timburs er að finna í fyrsta hluta þess staðals, ÍST EN 14081-1 Timburvirki - Styrkleikaflokkað timbur í burðarvirki með rétthyrndu þversniði - Hluti 1: Almennar kröfur. Staðallinn ÍST EN 519 hefur verið felldur úr gildi.

ÍST INSTA 142 Norrænar reglur fyrir útlits-styrkflokkun á timbri í burðarvirki er fáanlegur hjá Staðlaráði. Pantið í síma 520 7150 eða á vefsíðu Staðlaráðs,www.stadlar.is

Eiríkur Þorsteinsson, hjá EÞ Trétækniráðgjöf.  

Staðlaráð Íslands    Þórunnartúni 2, 3. hæð, 105 Reykjavík    Kennitala: 591193 2019    Opnunartími    Sími 520 7150 fax 520 7171

Þessi síða notar vefkökur (e. cookies).

Nánari upplýsingar

Samþykkja