Ný útgáfa ÍST 30 - Skýrari og auðveldari í notkun 15.11.11

Rögnvaldur GunnarssonUm þessar mundir er að koma út 6. útgáfa staðalsins ÍST 30 Almennir útboðs- og samningsskilmálar um verkf-ramkvæmdir. Því er réttað gera lítillega grein fyrir meginbreytingum frá fyrri útgáfu. Hér verður þó ekki gerð tilraun til að útlista einstaka breytingar eða efnisgreinar, enda hefur það þegar verið gert með kynningu endur-skoðunarinnar í umsagnarferli.

Samskiptareglur kaupenda og seljenda

ÍST 30 er væntanlega sá íslenski staðall sem einna mest er notaður. Hann var fyrst gefinn út 1969 og hefur verið endurskoðaður fjórum sinnum síðan, þ.e. 1979, 1988, 1997 og 2003. Þrátt fyrir þessa endurskoðun hefur meginhluti staðalsins staðið frá upphafi, sem sýnir að vel hefur verið vandað til hans og að notendur hafa verið tiltölulega ánægðir með innihald hans. ÍST 30 fjallar fyrst og fremst um samskiptareglur milli þeirra sem kaupa verk og þeirra sem selja verk og það er hinn markaði tilgangur með staðlinum. Vegna mikillar almennrar notkunar þarf staðallinn að vera skýr og framsetning eins einföld og unnt er. Staðallinn mun aldrei leysa öll mál sem upp koma milli verktaka og verkkaupa, en honum er samt ætlað það stóra hlutverk að kveða á um samskiptareglur milli aðila.  

Skýrari röðun efnis - auðveldari í notkun

Á haustdögum 2008 stofnaði stjórn BSTR vinnuhóp til að takast á við fimmtu endurskoðun ÍST 30. Vinnuhópurinn var skipaður fulltrúum þeirra sem mestra hagsmuna hafa að gæta við notkun hans, þ.e. verktaka, verkkaupa og ráðgjafa. Þrátt fyrir að efni ÍST 30 hafi staðist vel tímans tönn frá 1969, hefur margt breyst og aðferðir og vinnulag þróast. Orðalag og orðanotkun, sem í sumum tilvikum á uppruna sinn í fyrstu útgáfu staðalsins gáfu tilefni til uppfærslu og nokkur ný hugtök og aðferðir voru innleidd, hugtök og aðferðir sem ekki voru til staðar við fyrri útgáfu staðalsins. Í þessari nýju útgáfu er reynt að kveða skýrar á um ýmis ákvæði og samskipti kaupanda og seljanda verkframkvæmda, og samræma orðalag varðandi skyldur og réttindi þessara aðila. Eitt af meginmarkmiðunum er að staðallinn sé notaður óbreyttur í þessum samskiptum, en einnig skilgreint hvernig skuli fara með frávik frá honum. Sú breyting sem kannski vekur mesta eftirtekt er breytt uppröðun efnis. Efni staðalsins er nú sett fram í sex meginköflum sem er raðað í tímaröð eftir framvindu. Ástæðan fyrir þessari breytingu er fyrst og fremst sú að í eldri útgáfum er nokkuð um að fjallað sé um sömu eða keimlík atriði á fleiri en einum stað í staðlinum og taldi vinnuhópurinn að þessi nýja framsetning gerði hann auðveldari í notkun og skýrari.

Ég vil þakka samstarfsmönnum mínum í vinnuhópnum, þeim Ásgeiri Magnússyni, Sigurði B. Halldórssyni, Guðmundi Pálma Kristinssyni, Kolbeini Kolbeinssyni, Magnúsi Jónssyni, Óskari Valdimarssyni og Sigþóri Jóhannessyni fyrir samstarfið þessi þrjú ár sem við höfum unnið að þessu verkefni. Auk þess á Arngrímur Blöndahl, ritari vinnuhópsins, sérstakar þakkir skildar fyrir að halda utan um allar breytingar og koma þeim til skila í þessa nýju útgáfu.

Rögnvaldur Gunnarsson, forstöðumaður hjá Vegagerðinni.  

Staðlaráð Íslands    Þórunnartúni 2, 3. hæð, 105 Reykjavík    Kennitala: 591193 2019    Opnunartími    Sími 520 7150 fax 520 7171

Þessi síða notar vefkökur (e. cookies).

Nánari upplýsingar

Samþykkja