2.1. Aðferð við að CE-merkja vöru

Sá sem þarf að CE-merkja vörur sínar getur fylgt eftirfarandi leiðbeiningum:


a) Skoða lista yfir útgefnar nýaðferðartilskipanir til að greina hvaða vörur falli undir hvaða tilskipun.

b) Fá í hendur viðkomandi tilskipun eða íslenska reglugerð sem innleiðir tilskipun og gera sér grein fyrir þeim kröfum sem eiga við tiltekna vöru.

c) Kanna hvaða staðla er vísað til um nánari útfærslu á kröfum tilskipunar eða reglugerðar.

d) Með hjálp tilskipunarinnar er hægt að velja þær leiðir sem eiga við samkvæmt einingakerfinu við samræmismat, þ.e. hvaða einingar falla undir tilskipunina.

e) Finna út hvar á EES svæðinu er að finna tilnefndan aðila (ef hans er krafist) sem hefur heimild til að meta samræmi við tilgreinda tilskipun.

  • Í sumum tilfellum þarfnast framleiðandi þess að fá ráðleggingar um hvaða tilskipanir eiga við og hvort þær eru fleiri en ein.

  • Athugið að sumar nýaðferðartilskipanir, sérstaklega vélatilskipunin, ná yfir svo breitt svið af vörum að þeim er skipt upp í mismunandi flokka og mismunandi verklagsreglur eru notaðar við samræmismat þeirra.

Tilnefndur aðili
Stjórnvöld aðildarríkis geta útnefnt stofnun eða fyrirtæki innan ríkisins sem getur framkvæmt tiltekinn hluta samræmismats í ákveðnum nýaðferðartilskipunum. Slíkur aðili er kallaður "tilnefndur aðili" (e. notified body). Framleiðandi getur nálgast tilnefnda aðila í hvaða ríki innan EES sem er, en hann má hinsvegar ekki skipta um aðila eftir hentugleika eftir að valið hefur farið fram. Framleiðendur á Íslandi geta þurft að sækja þjónustu tilnefndra aðila til annarra landa.

Í sumum tilvikum þarf vottun, prófun eða skoðun við samræmismat. Það er yfirlýst stefna ESB að þeir sem stunda vottanir, prófanir og skoðanir eigi að fullnægja ákvæðum Evrópustaðla um samræmismat (ISO/IEC 17000-staðlaröðin). Með þessu móti á að skapa það gagnkvæma traust sem er nauðsynlegt til þess að samræmismat í einu landi sé viðurkennt í öðru landi innan Evrópska efnahagssvæðisins. Tilnefndir aðilar geta boðið framleiðendum upp á að annast prófanir og vottun sem þarf til að uppfylla tiltekna nýaðferðatilskipun.

Umsjón með tilskipunum
Hérlendis hefur verið farin sú leið að fela ákveðnum stofnunum umsjón með nýaðferðartilskipunum. Hlutverk þessara aðila er tvíþætt:

  • að hafa markaðseftirlit með þeim vöruflokkum sem falla undir tilskipunina

  • veita lágmarksupplýsingar um tilskipanirnar

Umsjónaraðilum má því ekki rugla saman við tilnefnda aðila, hlutverk þeirra er annað. Í lista yfir nýaðferðartilskipanir er að finna hvaða stjórnvald ber ábyrgð á hvaða tilskipun.

Sérstakar reglur um áhættusamar vörur
Það er ljóst að mismunandi áhætta fylgir notkun vöru. Í vissum vöruflokkum eru skilyrði fyrir notkun CE-merkingarinnar strangari og þá þarf faggilt prófunarstofa að framkvæma gerðarprófun og meta hvort varan uppfylli allar kröfur. Vörur sem falla undir þessar reglur eru t.d. gastæki, tjakkar, rafmagnssagir og persónuhlífar.

2.2. Samræmismat

 

Til baka í efnisyfirlit

Staðlaráð Íslands    Þórunnartúni 2, 3. hæð, 105 Reykjavík    Kennitala: 591193 2019    Opnunartími    Sími 520 7150 fax 520 7171

Þessi síða notar vefkökur (e. cookies).

Nánari upplýsingar

Samþykkja