1.1. Tilskipanir og staðlar

Eftirfarandi mynd sýnir tengsl staðla og tilskipana:

Tengsl tilskipana og staðla

Í viðauka við hverja tilskipun er birtur listi yfir þá Evrópustaðla (EN) sem eiga við hverju sinni. Uppfylli vara kröfur staðla sem tilskipun vísar til, er gert ráð fyrir að varan uppfylli kröfur þeirrar tilskipunar.

Brýnt er að  framleiðendur gæti að því hvort vörur þeirra heyri undir tilskipanir þessar. Ef sú er raunin verður að fylgja ákvæðum þeirra og sýna fram á samræmi við kröfurnar með CE-merkingu.

Á Evrópska efnahagssvæðinu er óheimilt að markaðssetja vörur án CE-merkis heyri þær undir nýaðferðartilskipanir. Þetta gildir einnig um íslenskar vörur á íslenskum markaði. Það eru framleiðendur sjálfir sem bera ábyrgð á að vörur þeirra séu CE-merktar en innflytjendur bera ábyrgð á að vörur sem þeir flytja inn beri CE-merki, ef við á.

Staðlar

Staðall er skilgreindur á eftirfarandi hátt í ÍST EN 45020:

  • Skjal, ákvarðað með sammæli og samþykkt af viðurkenndum aðila, þar sem settar eru fram til algengrar og endurtekinnar notkunar, reglur, leiðbeiningar eða eiginleikar fyrir starfsemi eða afrakstur hennar í þeim tilgangi að ná fram sem mestri samskipan í tilteknu samhengi.


Í skilgreiningunni felst:

  • Staðall er góð lausn að mati þeirra sem best þekkja til
  • Menn koma sér saman um lausn
  • Það eru hagsmunaðilar sem semja staðal, þ.e. nefndir sérfræðinga á viðkomandi sviðum
  • Staðall er ekki reglugerð, þ.e. ekki reglur settar einhliða af einhverju yfirvaldi

Af þessu sést hversu ákjósanlegt og nauðsynlegt það er að vinna samkvæmt stöðlum. Staðlar eru skjöl sem margir hagsmunaaðilar hafa komið sér saman um að innihaldi góðar lausnir. Einnig er það mikilvægt að staðlar eru ekki settir einhliða af yfirvaldi eða samtökum með takmarkaða viðurkenningu. Þvert á móti, staðlar geta verið viðurkenndir sem landsstaðlar, innan Evrópu og haft alþjóðlegt gildi.

Íslenskur staðall (ÍST) er staðall sem hefur verið staðfestur af Staðlaráði Íslands. Staðlaráð Íslands er samtök hagsmunaaðila. Fyrirtæki, opinberar stofnanir, neytendur og ýmis samtök atvinnulífsins eiga aðild að Staðlaráði.

Evrópustaðall (EN) er staðall sem hefur verið samþykktur innan evrópsku staðlasamtakanna CEN, CENELEC, eða ETSI. Öll aðildarlönd eru skyldug til að innleiða slíkan staðal sem landsstaðal og nema úr gildi eldri landsstaðla á sama sviði. Aðild að CEN og CENELEC eiga öll EES-ríkin auk Sviss og Króatíu sem þýðir að sami staðall gildir í 31 Evrópulandi.

Samstarf er milli evrópsku staðlasamtakanna og alþjóðlegu staðlasamtakanna ISO og IEC. Samstarfið tryggir að ekki sé verið að vinna á sviðum innan Evrópu sem unnið er að á alþjóðlegum vetfangi. Dæmi um slíkt eru ISO 9000 gæðastjórnunarstaðlarnir. ISO 9001 staðalinn er auðkenndur ÍST EN ISO 9001 hérlendis þar sem hann er íslenskur staðall, evrópskur og alþjóðlegur (ISO) staðall.

2. Ferli CE-merkingar

 

Til baka í efnisyfirlit

 

Samhæfðir staðlar fyrir byggingarvörur

Staðlaráð heldur úti vefsíðu samkvæmt samkomulagi við Mannvirkjastofnun. Síðan er hugsuð sem vettvangur fyrir opinbera birtingu samhæfðra staðla sem heyra undir byggingarvörutilskipun ESB nr. 205/2011.

Vefurinn er einnig hugsaður sem verkfæri fyrir þá sem þurfa CE-merkja byggingarvörur eða styðjast við samhæfða íslenska staðla fyrir byggingarvörur með einhverjum hætti. Sjá hér >>

Staðlar sem heyra undir aðrar vörutilskipanir ESB eru ekki vaktaðir með sama hætti af Staðlaráði. Opinber birting staðla sem heyra undir aðrar tilskipanir en byggingarvörutilskipun er ekki á hendi Staðlaráðs.

 

Staðlaráð Íslands    Þórunnartúni 2, 3. hæð, 105 Reykjavík    Kennitala: 591193 2019    Opnunartími    Sími 520 7150 fax 520 7171

Þessi síða notar vefkökur (e. cookies).

Nánari upplýsingar

Samþykkja