1. CE-merkið

Mjög brýnt er fyrir framleiðendur og innflytjendur að gæta að því hvort vörur sem þeir framleiða eða flytja inn heyri undir tilteknar tilskipanir Evrópusambandsins. Ef sú er raunin verður að fylgja ákvæðum þeirra og sýna fram á samræmi við kröfurnar með CE-merkingu.

Á Evrópska efnahagssvæðinu er óheimilt að markaðssetja vörur án CE-merkis heyri þær undir svonefndar nýaðferðar-tilskipanir. Þetta gildir einnig um íslenskar vörur á íslenskum markaði. Það eru framleiðendur sjálfir sem bera ábyrgð á að vörur þeirra séu CE-merktar. Innflytjendur bera ábyrgð á að vörur sem þeir flytja inn beri CE-merki, ef við á.

Þegar varan hefur verið CE-merkt er heimilt að markaðssetja hana án hindrana á öllu Evrópska efnahagssvæðinu, enda uppfylli varan aðar kröfur sem til hennar kunna að vera gerðar.

CE-merking vöru gefur til kynna að varan uppfylli þær lágmarkskröfur um öryggi og heilsuvernd sem settar eru fram í Evróputilskipunum. Sá sem telur sig fullnægja öllum ákvæðum allra tilskipana, sem vöru hans varða hefur leyfi til að auðkenna vöru sína með stöfunum CE. CE-merking tiltekinnar vöru er þannig ekki eingöngu yfirlýsing um að varan sé í samræmi við ákveðna tilskipun heldur sérhverja nýaðferðartilskipun sem gæti átt við vöruna. Slík auðkenning er skilyrði fyrir markaðssetningu þeirra vöruflokka sem tilskipanirnar ná yfir. CE-merki má eingöngu nota til að gefa til kynna samræmi við nýaðferðartilskipanir en ekki eldri tæknilegar tilskipanir sem eru enn í gildi. Undir liðnum "Nýaðferðartilskipanir" hér til vinstri má finna tilskipanir, reglugerðir og yfirlit yfir staðla.
Staðlaráð Íslands hefur gegnum tíðina haldið ýmis námskeið um CE-merkingar.

Forsaga CE-merkisins

Mikið hefur verið gert til þess að stuðla að því að innri markaður evrópska efnahagssvæðisins EES blómstri og sé eins hindrunarlaus og frekast er kostur. Alkunna er að landamæraeftirlit hefur verið einfaldað eða jafnvel alveg fellt niður. Borgarar EES-ríkjanna geta hindrunarlaust ferðast yfir innri landamæri svæðisins án mikils eftirlits.
Afnám landamæraeftirlits dugir ekki til að koma á hindrunarlausum innri markaði. Fyrir hendi geta verið svonefndar tæknilegar viðskiptahindranir. Þær þarf einnig að afnema. Þessar tæknilegu viðskiptahindranir felast í því að mismunandi lög, reglur og staðlar gildi í hverju Evrópulandi fyrir sig. Framleiðendur þurfa þá að laga framleiðsluvörur sínar að mismunandi kröfum eftir því til hvaða lands varan er seld. Vissulega er nauðsynlegt að löggjafinn geri kröfur til að tryggja öryggis og heilsuvernd en það er engin nauðsyn til þess að hvert ríki geri mismunandi kröfur. Slíkur mismunur er oftast ekki kominn til af nauðsyn heldur má líta svo á að verið sé að vernda innlendan iðnað fyrir utanaðkomandi samkeppni. Hér getur verið um að ræða mismunandi staðla, mál og vog, tæknilegar reglur, mismunandi gæðaeftirlitskröfur og kröfur um leyfisveitingar. Séu þessar kröfur mjög frábrugðnar frá einu landi til annars geta þær falið í sér umtalsverðar viðskiptahindranir.

Eigi óskiptur innri markaður að vera raunin þarf að afnema tæknilegar viðskiptahindranir milli landa. Auðveldasta leiðin er talin vera sú að tekin sé upp gagnkvæm viðurkenning á stöðlum og eftirliti einstakra landa þannig að vara, sem hefur verið samþykkt til sölu í einu landi innan Evrópska efnahagssvæðisins, eigi sjálfkrafa og tafarlausan aðgang að öllum markaði svæðisins.

Í samræmi við það hefur framkvæmdastjórn Evrópusambandsins mótað stefnu í þessum efnum. Aðalatriðum stefnu ESB má lýsa á eftirfarandi hátt: Samræmdar grunnkröfur um öryggi og heilsuvernd skulu gilda í öllum ríkjum ESB. Í öðru lagi skal vara sem sett er löglega á markað í einu ríki vera fullboðleg í öðrum ríkjum. Loks skal taka upp gagnkvæma viðurkenningu á prófunum og vottorðum.

1.1. Tilskipanir og staðlar


Til baka í efnisyfirlit

Staðlaráð Íslands    Þórunnartúni 2, 3. hæð, 105 Reykjavík    Kennitala: 591193 2019    Opnunartími    Sími 520 7150 fax 520 7171

Þessi síða notar vefkökur (e. cookies).

Nánari upplýsingar

Samþykkja