Tækninefndir og verkefni

 • Ný útgáfa af staðli um raflagnir bygginga í vinnslu

  Nú stendur yfir vinna við að uppfæra ÍST 200:2006 Raflagnir bygginga, í  samvinnu við Mannvirkjastofnun. Staðallinn , sem byggir á  alþjóðlegu staðlaröðinni IEC 60364 og evrópskum HD 384/HD 60364 samræmingarskjölum, var orðin úreltur að hluta þar sem margir uppfærðir staðlar í þessari staðlaröð höfðu komið út síðan 2005. Vinna er í fullum gangi við að yfirfara og bera saman efni og þýða nýja staðla sem munu verða notaðir í nýju útgáfuna. Þó að staðallin beri íslenskt númer og heiti er um samevrópskan staðal að ræða og gilda sömu reglur hér og í öðrum Evrópulöndum um hönnun og lagningu raflagna fyrir byggingar nema þar sem annað er tekið fram.

 • Handbók tæknimanna - Staðalvísir fyrir ÍST 200

  Í tengslum við útgáfu staðalsins ÍST 200 og það að til hans er vísað í reglugerð, þá gaf Rafstaðlaráð (RST) og Samtök atvinnurekenda í raf- og tölvuiðnaði (SART) út skýringarhandbók um staðalinn að fyrirmynd annarra Norðurlandaþjóða. Þessi handbók fjallar um staðalinn og útskýrir, með texta og myndum, hvaða hugsun liggur á bak við einstök ákvæði hans og gefur dæmi um útfærslu. Handbókin er ætluð sem leiðbeiningar- og hjálparrit fyrir hina ýmsu hópa tækni- og iðnaðarmanna á rafmagnssviði. Handbókin bætir úr brýnni þörf fyrir aðgengilegt ítarefni um ákvæði reglugerðar um raforkuvirki og stuðlar um leið að betri, vandaðri og samhæfðari frágangi raflagna og raforkuvirkja. Þegar ný útgáfa ÍST 200 verður tilbúin mun Staðalvísirinn verða uppfærður og gefinn út að nýju.

Tækninefndir RST

Tækninefndir starfandi á vegum RST þessa stundina eru:

 • NTC 64  fer yfir þau mál sem snerta rafmagnsöryggi í rekstraveitum, þ.e. raflagnir og rafmagnsöryggi í byggingum sem eru í vinnslu og til afgreiðslu hjá IEC TC 64 og CENELEC TC 64. Forskeytið NTC þýðir þjóðartækninefnd.

 • NTC11 vann þjóðarviðauka ÍST EN 50341-2-12:2018 Háspennulínur yfir AC 1 KV - Part 2-12: Þjóðarviðaukar fyrir Ísland. Staðallinn tók gildi 25. febrúar 2019. Tækninefndin er skráð í dvala, sem þýðir að hún er ekki að störfum en hana megi vekja úr dvala reynist það nauðsynlegt.

 • TN 151 gerði staðalinn ÍST 151:2016 Fjarskiptalagnir í íbúðarhúsnæði - Loftnetskerfi - Netkerfi - Símkerfi - Hússtjórnarkerfi. Tækninefndin mun verða skráð í dvala þegar kynningu staðalsins er lokið.

 • TN 150 var endurvakin til að endurskoða ÍST 150 í kjölfar útgáfu ÍST 151 sem yfirtók hluta af umfangi staðalsins. Þeirri vinnu er ekki lokið.

 • TN ITR Innviðir og tengistaðir rafbíla var stofnuð til að svara þörf fyrir stöðlunarskjöl í tengslum við orkuskipti í samgöngum. Nefndin hefur unnið að undirbúningi stöðlunarverkefna um nokkurt skeið en ekkert verkefni er formlega hafið.

Önnur verkefni

Nýlega er lokið verkefni við þýðingu á staðlinum ÍST EN 50522 sem fjallar um jarðbindingar háspennuvirkja yfir 1 kV. Staðallinn er gefin á íslensku og ensku.

Kominn er út íslensk þýðing staðalsins ÍST EN 50110-1:2013 Notkun raforkuvirkja - Hluti 1: Almennar kröfur.  Staðallin leysir af hólmi orðsendingu 1/84 Rekstur, eftirlit og viðhald raforkuvirkja.

Tækninefndir og fóstrun tækninefnda

Til að virkja fleiri innan RST til þátttöku í starfinu hefur aðilum verið boðið að taka tækninefndir í "fóstur". Sá sem hefur áhuga á að fylgjast með störfum tækninefnda CENELEC og/eða IEC fær send öll gögn sem berast frá nefndunum. Hann kynnir sér gögnin eins og þau gefa tilefni til og gerir stjórn RST viðvart ef einhver atriði í störfum nefndarinnar þarfnast kynningar eða umfjöllunar á íslenskum vettvangi. Hægt er að fá aðgang að gögnum frá tækninefndunum í gegnum Internetið.

Þeim sem hafa áhuga á að taka tækninefnd í fóstur hafi samband við Guðmund Valsson, ritara Rafstaðlaráðs, í síma 520 7150.

Yfirlit yfir tækninefndir á vegum CENELEC er að finna á eftirfarandi slóð:

Tækninefndir CENELEC

Erlent samstarf

Rafstaðlaráð, í samstarfi við Staðlaráð, tekur þátt í samstarfi um mál sem heyra undir evrópsku rafstaðlasamtökin CENELEC og Alþjóða raftækniráðið IEC.

Framkvæmdastjóri Staðlaráðs sækir aðalfundi CENELEC og IEC. Á aðalfundum er m.a. fjallað um stefnumál, breytingar á starfsreglum, um aðildarmál, samskipti við önnur stöðlunarsamtök (CENETSI, ISO, ITU), samskipti við stjórnvöld og áheyrnaraðila, og fjármál.

Ritari Rafstaðlaráðs sækir fundi tækniráðs CENELEC, sem eru fjórir á ári. Á tækniráðsfundum er m.a. fjallað um úrslit atkvæðagreiðslna um staðlafrumvörp, ný verkefni, skýrslur um störf tækninefnda, samræmingu vinnu milli nefnda, stofnun nýrra tækninefnda, samstarf við CEN, ETSI og IEC, samstarf við EC og EFTA, nýjar stöðlunarbeiðnir frá ESB/EFTA, tengsl staðla og reglugerða/tilskipana, og innri stjórnun samtakanna.

Staðlaráð Íslands er aðeins aukaaðili (associate member) að IEC og því er ekki um þátttöku í öðrum fundum en aðalfundi að ræða. Þó er heimilt að taka þátt í tækninefndastarfi á vegum IEC sem áheyrnaraðili.

Nokkrir aðilar að Rafstaðlaráði hafa tekið að sér að fylgjast með starfi tiltekinna tækninefnda á vegum CENELEC og IEC, en fundir tækninefndanna hafa hingað til ekki verið sóttir.

Staðlaráð Íslands    Þórunnartúni 2, 3. hæð, 105 Reykjavík    Kennitala: 591193 2019    Opnunartími    Sími 520 7150 fax 520 7171

Þessi síða notar vefkökur (e. cookies).

Nánari upplýsingar

Samþykkja