Starfsreglur


1. grein

Heiti

Ráðið heitir Rafstaðlaráð (RST). Það starfar í umboði stjórnar Staðlaráðs Íslands í samræmi við starfsreglur þess um fag­staðla­ráð.

Að öðru leyti en þessar reglur kveða á um gilda starfsreglur Staðlaráðs, staðfestar af iðnaðarráðherra 29. ágúst 2005, og lög um staðla og Staðlaráð Íslands nr. 36/2003.

2. grein

Hlutverk

Rafstaðlaráð er vettvangur stöðlunar á sviði raftækni. Hlutverk þess eru:

  • gerð árlegrar starfs- og fjárhagsáætlunar,
  • samræming og frumkvæði í stöðlunarvinnu og öðrum verkefnum á fagsviðinu,
  • umsjón stöðlunarvinnu á fagsviðinu,
  • þátttaka í innlendu og erlendu samstarfi á sviði stöðlunar í raftækni í samræmi við það starfsumboð sem Staðlaráð veitir því.

Verði ágreiningur um túlkun gildandi staðals sem heyrir undir fagstaðlaráðið, og því tekst ekki að leysa úr, skal vísa málinu til stjórnar Staðlaráðs, sem sker úr.

3. grein

Aðild að Rafstaðlaráði

Sækja skal skriflega um aðild að fagstaðlaráði. Óski aðili að Staðlaráði eftir aðild að fleiri en einu fagstaðlaráði, skulu aðildargjöld hans skiptast jafnt milli fagstaðlaráðanna.

Aðilar að Rafstaðlaráði skulu skipa einn fulltrúa hver til setu í því og annan til vara. Fulltrúar skulu skipaðir fyrir aðalfund og til tveggja ára í senn.

Fulltrúar að Rafstaðlaráði skulu ábyrgir fyrir því að umbjóðendum þeirra sé ávallt kunnugt um ákvarðanir ráðsins og skulu, eftir því sem við á, leita eftir afstöðu þeirra til mála sem þar eru á dagskrá hverju sinni.

Áhugaaðilar geta setið einstaka fundi Rafstaðlaráðs sem áheyrnarfulltrúar að fengnu samþykki framkvæmdaráðs.

4. grein

Fjármál

Ráðstöfunartekjur Rafstaðlaráðs eru aðildargjöld þess, auk annarra tekna og styrkja vegna verkefna fagstaðlaráðsins. Þessar tekjur skal ekki nýta í annað en verkefni á vegum fagstaðlaráðsins.

Fjárhagur Rafstaðlaráðs er aðskilinn fjárhag Staðlaráðs og er Rafstaðlaráði óheimilt að skuldbinda Staðlaráð eða stjórn þess fjárhagslega. Á sama hátt er Staðlaráði óheimilt að skuldbinda Rafstaðlaráð eða framkvæmdaráð þess fjárhagslega.

Staðlaráð sér um bókhald Rafstaðlaráðs. Öllum fjármunum sem fagráðinu kunna að leggjast til skal haldið aðgreindum í bókhaldi Staðlaráðs svo og ráðstöfun þeirra.

5. grein

Almennir fundir

Halda skal fundi í Rafstaðlaráði svo oft sem ástæða þykir, þó eigi sjaldnar en tvisvar á ári. Haustfund skal að jafnaði halda í október ár hvert. Jafn­framt ber að boða til fundar ef 1/5 hluti fulltrúa óskar þess skriflega.

Á almennum fundum Rafstaðlaráðs er tekin afstaða til framkominna tillagna að verkefnum, mótuð stefna í einstökum verkefnum og verkefnasviðum og teknar fyrir skýrslur um framvindu verkefna. Þá eru einnig tekin til umfjöllunar einstök málefni varðandi stöðlun í raftækni ef þörf krefur.

Fundur Rafstaðlaráðs telst ályktunarfær sé minnst helmingur fulltrúa að ráðinu viðstaddur.

 6. grein

Aðalfundur

Aðalfundur Rafstaðlaráðs skal haldinn á fyrri hluta árs, í tæka tíð fyrir aðalfund Staðlaráðs. Hver fulltrúi í Rafstaðlaráði hefur eitt atkvæði á aðalfundi.

Framkvæmdaráð skal boða til aðalfundar bréfleiðis eða á annan tryggilegan hátt, með minnst tveggja vikna fyrirvara. Fulltrúum á aðalfundi skulu send öll fundargögn a.m.k. viku fyrir aðalfund. Aðalfundur er löglegur ef löglega er til hans boðað.

Þessi mál skulu tekin fyrir á aðalfundi:

a) Skipan fundarstjóra og fundarritara

b) Skýrsla framkvæmdaráðs fyrir liðið starfsár

c) Skýrslur starfshópa

d) Reikningar Rafstaðlaráðs

e) Breytingar á starfsreglum

f) Starfs- og fjárhagsáætlun yfirstandandi árs, þ.m.t. ráðstöfun aðildargjalda og annarra fjármuna sem fagstaðlaráðinu kunna að leggjast til

g) Kosning framkvæmdaráðs

h) Kosning félagslegra skoðunarmanna reikninga

g) Önnur mál.

 

7. grein

Framkvæmdaráð

Fulltrúar í Rafstaðlaráði kjósa á aðalfundi til tveggja ára, formann og fjóra aðra í framkvæmdaráð úr röðum fulltrúa í Rafstaðlaráði. Annað árið skal kjósa formann sérstaklega og tvo fulltrúa. Hitt árið skal kjósa tvo fulltrúa.

Framkvæmdaráðið skiptir sjálft með sér verkum. Það fer með málefni Rafstaðlaráðs milli funda þess.

Skoðunarmenn reikninga skal kjósa til tveggja ára þannig að kosið er um annan þeirra á hverjum aðalfundi.

 

8. grein

Skipulag

Framkvæmdastjóri Staðlaráðs ræður, í samráði við formann Rafstaðlaráðs, starfsmann eða ritara til að sinna faglegum verkefnum fyrir ráðið. Ritari sem starfar fyrir Rafstaðlaráð ber ábyrgð á störfum sínum gagnvart framkvæmdaráði Rafstaðlaráð.

9. grein

Fundir framkvæmdaráðs

Formaður kallar framkvæmdaráð saman til funda eða annar fulltrúi framkvæmdaráðs í umboði hans. Formaður stýrir fundum. Ritari Rafstaðlaráðs situr stjórnarfundi. Hann hefur málfrelsi og tillögurétt en ekki atkvæðisrétt.

Framkvæmdaráð annast daglegan rekstur Rafstaðlaráðs og framkvæmd þeirra verkefna, sem falla undir það.

Ritari Rafstaðlaráðs annast daglegan rekstur þess í umboði framkvæmdaráðsins. Hann er fulltrúum framkvæmdaráðs til aðstoðar og sinnir þeim verkefnum, sem honum eru falin.

Framkvæmdaráð felur formanni og ritara umboð til þess að fara með málefni þess á milli funda.

Fundarboð framkvæmdaráðs skulu hafa borist eigi síðar en 2 dögum fyrir boðaðan fundardag. Í fundarboði skal koma fram dagskrá fundarins og öll nauðsynleg gögn til að afgreiða mál á dagskránni, auk tillagna um afgreiðslu mála ef við verður komið. Heimilt er að leggja fram á fundi gögn til kynningar á máli, sem ekki er á dagskrá, eða gögn varðandi mál sem ekki koma til afgreiðslu á fundinum.

Nú óskar fulltrúi eftir því að sérstakt málefni verði tekið fyrir á fundi og sendir hann þá beiðni þess efnis til formanns. Með erindinu skulu fylgja öll gögn sem varða afgreiðslu málsins.

10. grein

Tækninefndir

Framkvæmdaráð Rafstaðlaráðs hefur frumkvæði að og gerir tillögu til stjórnar Staðlaráðs um stofnun tækninefnda á sínu sviði, skipan þeirra og störf. Það skal leita eftir tilnefningu hags­muna­aðila í tækninefndir.

Framkvæmdaráð skal við gerð tillagna um skipan tækninefnda gæta að því að í þeim sitji fulltrúar sem víðtækastra hagsmuna á sviðinu.  Eftir atvikum skal leitast við að í þeim sitji fulltrúar framleiðenda, seljenda, neytenda, rannsóknaraðila og stjórnvalda.

Framkvæmdaráð skal við gerð tillagna um störf tækninefndar hafa m.a. í huga eftirtalda þætti, einn eða fleiri:

  • faglega vinnu sem tengist þátttöku Staðlaráðs í alþjóðlegu staðlasamstarfi,
  • úrvinnslu á niðurstöðum verkefna í staðlasamstarfi sem Staðlaráð er aðili að,
  • umsjón séríslenskra verkefna, þ.m.t. endurskoðun gildandi íslenskra staðla,
  • ábyrgð á viðhaldi gildandi íslensks staðals.

11. grein

Atkvæðagreiðsla

Við afgreiðslu mála á fundum fagstaðlaráðs og framkvæmdaráðs skal leitað eftir sem mestri samstöðu og kappkostað að afgreiða mál samhljóða.

Komi til atkvæðagreiðslu ræður einfaldur meirihluti atkvæða. Ef atkvæði falla jafnt ræður atkvæði formanns framkvæmdaráðs.

12. grein

Ágreiningur

Komi til ágreinings um túlkun þessarra reglna skal málinu vísað til stjórnar Staðlaráðs til úrskurðar.

13. grein

Gildistaka

Reglur þessar öðlast gildi að fenginni staðfestingu aðal­fund­ar Staðlaráðs Íslands. Þeim verður aðeins breytt hafi breyting verið samþykkt á aðalfundi Rafstaðlaráðs og staðfest á aðalfundi Staðlaráðs. Sama gildir um ráðstöfun fjármuna komi til slits á Rafstaðlaráði.

Samþykkt á aðalfundi Rafstaðlaráðs 27. mars 2006

Staðlaráð Íslands    Þórunnartúni 2, 3. hæð, 105 Reykjavík    Kennitala: 591193 2019    Opnunartími    Sími 520 7150 fax 520 7171

Þessi síða notar vefkökur (e. cookies).

Nánari upplýsingar

Samþykkja