Rafstaðlaráð

Rafstaðlaráð (RST) er fagstaðlaráð á vegum Staðlaráðs Íslands. RST var stofnað 7. júní 1994 og voru stofnaðilar 16  talsins. Áður starfaði Fagstjórn í raftækni um fjögurra ára skeið á vegum Staðlaráðs. Rafeindavirki

Rafstaðlaráð (RST) var stofnað með því markmiði að skapa breiðan grundvöll fyrir samvinnu um rafstöðlun meðal hagsmunaaðila hér á landi svo og til að taka þátt í rafstöðlun á alþjóðavettvangi.  RST eru opin samtök fyrir innlenda hagsmunaaðila og alla þá sem vilja fylgjast með og hafa áhrif á gerð staðla.  Aðild að RST veitir aðgang að nýjustu upplýsingum um gang alþjóðlegrar stöðlunar. Aðilar RST geta haft áhrif á gerð staðla á evrópskum vettvangi og frumkvæði að gerð séríslenskra staðla auk handbóka og annars kynningarefnis á íslensku.

RST tekur þátt í alþjóðastöðlun á sviði raftækni og fjallar um tæknileg málefni sem heyra undir evrópsku rafstaðlasamtökin CENELEC og Alþjóða raftækniráðið IEC.  RST leitast við að kynna fyrir aðilum sínum og öðrum þeim sem málið varðar, það stöðlunarstarf sem fram fer á vegum CENELEC og IEC og að gæta íslenskra hagsmuna á þeim vettvangi. RST hefur auk þess frumkvæði að nýjum verkefnum á staðlasviði hér innanlands.

Nánari upplýsingar um Rafstaðlaráð veitir Guðmundur Valsson hjá Staðlaráði Íslands í síma 520 7150.

Félagar í Rafstaðlaráði (RST) eru þeir sem hafa áhuga á rafstöðlunarmálum og/eða starfa á sviði rafstöðlunar. Þó að Staðlaráð,  Rafstaðlaráð og önnur fagstaðlaráð séu frjáls félagasamtök fyrirtækja, stofnana og annarra aðila sem koma með einhverjum hætti að stöðlum og stöðlun, þá eru starfsskyldur Staðlaráðs bundnar í lög um staðla,  númer 36  frá 2003. Vegna þessarar lagaskyldu kemur hluti af rekstrarfé Staðlaráðs frá ríkinu. 

Aðildargjöld Rafstaðlaráðs standa undir mestum hluta rekstrarkostnaðar þess, en einnig koma til tekjur af útgáfu handbóka og útgáfu séríslenskra staðla á raftæknisviði. Rafstaðlaráð lítur eftir hagsmunum íslenskra fyrirtækja og almennings á sviði raftækni og fylgist með stöðlun á þessu sviði. Það gefur út handbækur og stendur fyrir þýðingu mikilvægra staðla ef fjármunir fást í verkið. Með aðild gefst félögum tækifæri á að fylgjast með rafstöðlun, fá þar möguleika á að starfa að staðlamálum á Evrópuvettvangi og um leið að efla starfsemi Rafstaðlaráðs. Með samstarfi við aðrar þjóðir á vettvangi rafstöðlunar hefur RST, undir merkjum Staðlaráðs, náð að koma fram sem marktækt afl í heimi stöðlunar í Evrópu.  

RST hefur, auk þýðingar staðla og útgáfu handbóka, meðal annars beitt sér fyrir gerð sérstakra þjóðarviðauka, þegar þær aðstæður skapast að þörf  er á að vera með sérkröfur í rafstöðlum fyrir Ísland. Slík þörf getur skapast vegna óblíðra náttúruafla svo sem ísingar, jarðskjálfta eða vinds. Við hvetjum alla þá sem hagsmuni og/eða  áhuga hafa á rafstöðlun til að gerast aðilar að Rafstaðlaráði. Með aðild að Rafstaðlaráði er viðkomandi jafnframt orðinn aðili að Staðlaráði Íslands sem tryggir honum aðgang að upplýsingum um stöðlun á öðrum fagsviðum. Aðild er mun ódýrari en þig grunar og veitir þér ýmis réttindi. Sjá nánar hér >>

Rafstaðlaráð notar skammstöfunina RST, sem auk tilvísunar í nafnið, er valin með hliðsjón af því að þessir bókstafir voru lengi notaðir fyrir heiti fasanna í þrífasa rafkerfum, þar til núgildandi staðall um það efni tók gildi.

Staðlaráð Íslands    Þórunnartúni 2, 3. hæð, 105 Reykjavík    Kennitala: 591193 2019    Opnunartími    Sími 520 7150 fax 520 7171

Þessi síða notar vefkökur (e. cookies).

Nánari upplýsingar

Samþykkja