Fagstjórnir

Tvær fagstjórnir starfa á vegum Staðlaráðs Íslands, önnur á sviði gæða- og umhverfismála og hin á sviði véltækni.

Gæða- og umhverfismál

Fagstjórn í gæða- og umhverfismálum hefur starfað á vegum Staðlaráðs Íslands frá því í september 1991. Verksvið fagstjórnarinnar nær til gæðamála, vottunar og prófana. Hlutverk hennar felst meðal annars í að veita ráðgjöf um hvaða staðla á þessum sviðum sé vænlegt að þýða á íslensku, forgangsraða verkefnum, móta stefnu varðandi þátttöku Íslands í fjölþjóðlegu staðlasamstarfi og stuðla að framgangi stöðlunar í gæðamálum á Íslandi. 

Eftir að Alþjóðlegu staðlasamtökin ISO hófu að vinna að gerð umhverfisstjórnunarstaðla hefur fagstjórnin einnig sinnt því sviði hér á landi.

Umsjón með starfi fagstjórnarinnar hefur Arngrímur Blöndahl, verkefnastjóri hjá Staðlaráði Íslands.

Véltækni

Fagstjórn í véltækni fjallar um ákveðin fagsvið innan evrópskrar stöðlunar sem eru metin mikilvæg fyrir hagsmuni íslenskra fyrirtækja og íslensks iðnaðar. Um er að ræða eftirfarandi fagsvið:

  • Öryggi véla og búnaðar

  • Málmsuða og prófanir

  • Kæli- og frystibúnaður, umhverfisáhrif

  • Stálvirki og vélahlutahönnun

  • Matarvinnsluvélar

Lögð er áhersla á mikilvægi stöðlunar í véltækni, meðal annars vegna útflutnings vélbúnaðar og hátæknibúnaðar. Jafnframt er stöðlun í véltækni mikilvægur þáttur í íslenskum iðnaði vegna veitukerfa, stálvirkja, orkumannvirkja, skipasmíða o.fl. Stöðlunin beinist oft að öryggi fólks, svo sem í sambandi við lyftur, krana, þrýstikúta, gufukatla og ýmsan vélbúnað.

Eitt af verkefnum fagstjórnarinnar er að ákveða hvort ástæða sé til að þýða erlenda staðla um véltækni. Um þýðingar staðla í véltækni gilda sömu viðmið og um þýðingar annarra staðla. Þýðingar eru aðeins mögulegar ef nægjanlega stór markhópur er fyrir hendi eða hagsmunaaðilar kosti þýðingarnar. Annars er talið betra að hafa staðlana á ensku en beina kröftunum í að kynna efni þeirra og mikilvægi fyrir notendum.

Fagstjórn í véltækni hefur staðið fyrir þýðingu tveggja Evrópustaðla:

  • ÍST EN 287-1:1993 Hæfnispróf suðumanna - Rafsuða og logsuða - 1. hluti: Stál

  • ÍST EN 1672-2:1997 Vélar til matvælavinnslu - Grunnhugtök - 2. hluti: Hreinlætiskröfur

Nánari upplýsingar hjá Staðlaráði Íslands í síma 520 7150.

Staðlaráð Íslands    Þórunnartúni 2, 3. hæð, 105 Reykjavík    Kennitala: 591193 2019    Opnunartími    Sími 520 7150 fax 520 7171

Þessi síða notar vefkökur (e. cookies).

Nánari upplýsingar

Samþykkja