Starfsreglur

1. grein  

Fagstaðlaráð í upplýsingatækni

Ráðið heitir Fagstaðlaráð í upplýsingatækni (FUT). Það starfar í umboði stjórnar Staðlaráðs Íslands í samræmi við starfsreglur þess um fag­staðla­ráð.  Að öðru leyti en þessar reglur kveða á um gilda starfsreglur Staðlaráðs og lög um staðla og Staðlaráð Íslands, eins og þau eru á hverjum tíma.

2. grein  

Hlutverk FUT

Fagstaðlaráðið er vettvangur stöðlunar á sviði upplýsingatækni. Hlutverk þess eru: 

  • gerð árlegrar starfs- og fjárhagsáætlunar fyrir fagsviðið
  • samræming og frumkvæði í stöðlunarvinnu og öðrum verkefnum á fagsviðinu
  • umsjón stöðlunarvinnu á fagsviðinu
  • þátttaka í innlendu og erlendu samstarfi á sviði stöðlunar í upplýsingatækni
  • gera tillögu til stjórnar Staðlaráðs um stofnun tækninefnda á sínu sviði, skipan þeirra og störf.  

Verði ágreiningur um túlkun gildandi staðals sem heyrir undir fagstaðlaráðið, og því tekst ekki að leysa úr, skal vísa málinu til stjórnar Staðlaráðs, sem sker úr.    

3. grein  

Þátttaka í FUT

Rétt til þátttöku í FUT hafa aðilar að Staðlaráði Íslands. Sækja skal skriflega um þátttöku í fagstaðlaráðinu. Óski aðili eftir þátttöku í fleiri en einu fagstaðlaráði, skulu aðildargjöld hans skiptast jafnt milli fagstaðlaráðanna sem óskað er þátttöku í. Hlutfall aðildargjalda hefur ekki áhrif á atkvæðavægi þátttakenda. Tilkynning um breytingu á þátttöku í fagstaðlaráðinu skal vera skrifleg og berast framkvæmdaráði FUT og Staðlaráði.   

 4. grein  

Ráðstöfunarfé

Ráðstöfunarfé fagstaðlaráðs eru hlutdeild í aðildargjöldum til Staðlaráðs, sbr. 3. gr., auk annarra tekna og styrkja vegna verkefna fagstaðlaráðsins. Þetta ráðstöfunarfé skal ekki nýta í annað en verkefni á vegum fagstaðlaráðsins.     

5. grein  

Fundir fagstaðlaráðs

Framkvæmdaráð FUT boðar til funda fagstaðlaráðsins með tveggja vikna fyrirvara. Halda skal fundi í fagstaðlaráðinu svo oft sem ástæða þykir, þó eigi sjaldnar en tvisvar á ári og skal annar þeirra vera svo kallaður vorfundur þess. Dagskrá vorfundar skal vera eftirfarandi:  a) Skýrsla FUT fyrir liðið starfsár. Þar skal gerð grein fyrir nýtingu fjármuna og starfsemi fagstaðlaráðsins.  b) Starfs- og fjárhagsáætlun yfirstandandi árs, þ.m.t. ráðstöfun hlutdeildar í aðildargjöldum til Staðlaráðs og annarra fjármuna sem fagstaðlaráðinu kunna að leggjast til, afgreidd til samþykktar til stjórnar Staðlaráðs  c) Breytingar á starfsreglum  d) Kosning framkvæmdaráðs (annað hvert ár)  e) Önnur mál.  Jafn­framt ber að boða til fundar ef 1/5 hluti þátttakenda í FUT óskar þess skriflega. 

6. grein  

Skipan og starfshættir framkvæmdaráðs

Þátttakendur í FUT skulu kjósa því formann, fjóra aðra fulltrúa og tvo varamenn úr eigin röðum í framkvæmdaráð til tveggja ára í senn. Skipan nýs framkvæmdaráðs skal eiga sér stað á vorfundi, sem haldinn er í tæka tíð fyrir aðalfund Staðlaráðs og kynnt þar. Hver þátttakandi í fagstaðlaráðinu hefur eitt atkvæði. Framkvæmdaráðið skiptir sjálft með sér verkum. Það fundar svo oft sem þurfa þykir og fer með málefni fagstaðlaráðsins milli funda þess. Formaður boðar fundi ráðsins. Fundur telst ályktunarhæfur sé meirihluti ráðsins mættur. Í forföllum aðalmanns skal draga um hvor varamaðurinn tekur sæti aðalmanns og fer með atkvæði á þeim fundi. Færa skal fundargerðir og þær gerðar aðgengilegar öllum þátttakendum fagstaðlaráðsins.   

7. grein  

Rekstur

Rekstur FUT er hluti af faglegum og fjárhagslegum rekstri Staðlaráðs. Framkvæmdastjóri Staðlaráðs ræður, í samráði við formann FUT, starfsfólk til að sinna verkefnum FUT og/eða gerir samninga við utanaðkomandi aðila um að annast þjónustu við fagsviðið.  Þátttakendur eiga ekki rétt á launum frá fagstaðla­ráðinu, en heimilt er þó að greiða þeim þóknun fyrir tiltekið verkefni sem þeir vinna fyrir fagstaðlaráðið, í samráði við framkvæmdastjóra Staðlaráðs.    

8. grein  

Tækninefndir

Framkvæmdaráð FUT hefur frumkvæði að og gerir tillögu til stjórnar Staðlaráðs um stofnun tækninefnda á sínu sviði, skipan þeirra og störf. Það skal leita eftir tilnefningu hags­muna­aðila í tækninefndir.   Framkvæmdaráð skal við gerð tillagna um skipan tækninefnda gæta að því að í þeim sitji fulltrúar sem víðtækastra hagsmuna á sviðinu.  Eftir atvikum skal leitast við að í þeim sitji fulltrúar framleiðenda, seljenda, neytenda, rannsóknaraðila og stjórnvalda.   Framkvæmdaráð skal við gerð tillagna um störf tækninefndar hafa m.a. í huga eftirtalda þætti, einn eða fleiri:  

  • faglega vinnu sem tengist þátttöku Staðlaráðs í alþjóðlegu staðlasamstarfi
  • úrvinnslu á niðurstöðum verkefna í staðlasamstarfi sem Staðlaráð er aðili að
  • umsjón séríslenskra verkefna, þ.m.t. endurskoðun gildandi íslenskra staðla
  • ábyrgð á viðhaldi gildandi íslensks staðals

9. grein

Atkvæðagreiðsla

Við afgreiðslu mála á fundum fagstaðlaráðs og framkvæmdaráðs skal leitað eftir sem mestri samstöðu og kappkostað að afgreiða mál samhljóða.    Komi til atkvæðagreiðslu ræður einfaldur meirihluti atkvæða. Í þeim tilfellum sem atkvæði falla jöfn, ræður atkvæði formanns.    

10. grein  

Ágreiningur

Komi til ágreinings um túlkun þessarra reglna skal málinu vísað til stjórnar Staðlaráðs til úrskurðar.    

11. grein  

Gildistaka

Reglur þessar öðlast gildi að fenginni staðfestingu aðal­fund­ar Staðlaráðs Íslands. Þeim verður aðeins breytt á aðalfundi Staðlaráðs.   Samþykkt á vorfundi FUT 29. apríl 2008 og staðfest á aðalfundi Staðlaráðs Íslands 29. maí 2008 


Staðlaráð Íslands    Þórunnartúni 2, 3. hæð, 105 Reykjavík    Kennitala: 591193 2019    Opnunartími    Sími 520 7150 fax 520 7171

Þessi síða notar vefkökur (e. cookies).

Nánari upplýsingar

Samþykkja