Starfsreglur


1. grein

Heiti

Ráðið heitir  Byggingarstaðlaráð (BSTR). Það starfar sem fagstaðlaráð í umboði stjórnar Staðlaráðs Íslands í samræmi við starfsreglur þess um fagstaðlaráð.

Að öðru leyti en þessar reglur kveða á um gilda starfsreglur Staðlaráðs, staðfestar af iðnaðarráðherra 29. ágúst 2005, og lög um staðla og Staðlaráð Íslands, nr. 36/2003.


2. grein

Hlutverk og verksvið

BSTR er vettvangur stöðlunar á sviði  bygginga og mannvirkjagerðar.

Hlutverk þess er:

  • gerð árlegrar starfs- og fjárhagsáætlunar,
  • samræming og frumkvæði í stöðlunarvinnu og öðrum verkefnum á fagsviðinu,
  • umsjón stöðlunarvinnu á fagsviðinu,
  • þátttaka í innlendu og erlendu samstarfi á fagsviði sínu,
  • umfjöllun um verkefna- og staðlatillögur á fagsviði sínu sem berast frá staðlasamtökum sem Staðlaráð á aðild að.

Til byggingariðnaðar telst öll sú starfsemi sem fellur undir byggingarlög.  Þar á meðal má telja undirbúning, hönnun, útboð, verksamninga og framkvæmdir við byggingarmannvirki, viðhald þeirra og rekstur, svo og allt sem varðar byggingarefni og þjónustukerfi bygginga.  Til mannvirkjagerðar telst meðal annars gerð samgöngu- og orkumannvirkja.

Verði ágreiningur um túlkun gildandi staðals sem heyrir undir BSTR, og ekki tekst að leysa úr, skal vísa málinu til stjórnar Staðlaráðs, sem sker úr.


3.grein

Aðild að BSTR

Sækja skal skriflega um aðild að BSTR.

Þeir sem hafa fengið aðild að BSTR skulu skipa einn fulltrúa hver til setu í því og einn til vara.  Fulltrúar nýrra hagsmunaaðila skulu í fyrsta sinn skipaðir til loka skipunartíma sitjandi ráðs.  Skipunartími hvers ráðs er til tveggja ára frá 1. mars oddatöluárs.

Aðilum að ráðinu er í sjálfsvald sett, að hve miklu leyti, þeir gera kröfur til fulltrúa sinna um upplýsingastreymi varðandi starfsemi ráðsins svo og hvaða umboð þeir veita fulltrúum sínum til ákvarðanatöku um málefni sem fjallað er um á vegum ráðsins.

Starfsemi BSTR fer fram á fundum þess, á vegum framkvæmdaráðs, innan nefnda sem ráðið skipar og meðal fulltrúa sem starfa á þess vegum í alþjóðlegum nefndum.

Úrsögn úr ráðinu skal vera skrifleg og miðast við áramót.

4. grein

Fjármál

Tekjur BSTR eru aðildargjöld þess, auk annarra tekna og styrkja vegna verkefna.  Jafnframt fær BSTR hlutdeild í tekjum af sölu staðla samkvæmt samningi milli Staðlaráðs og fagstaðlaráðanna.  Þessar tekjur skal ekki nýta í annað en verkefni á vegum BSTR.

Fjárhagur BSTR er aðskilinn fjárhag Staðlaráðs og er BSTR óheimilt að skuldbinda Staðlaráð eða stjórn þess fjárhagslega.

Sjóðir BSTR verða í vörslu Staðlaráðs sem sér um alla greiðslu og innheimtu reikninga fyrir hönd BSTR, svo og bókhald þess.  Reikningar skulu áritaðir af formanni framkvæmdaráðsins eða ritara BSTR.

Framkvæmdaráð BSTR ráðstafar þeim ómörkuðu fjármunum, sem því kunna að leggjast til, í samræmi við rekstrar- og verkáætlanir ráðsins, eins og þær eru hverju sinni.

Framkvæmdaráðið er ábyrgt gagnvart fjárveitingaraðila varðandi ráðstöfun markaðra fjármuna, sem veittir kunna að verða til BSTR.

Tveir félagslegir skoðunarmenn reikninga BSTR skulu kjörnir til tveggja ára úr röðum ráðsmanna, strax að loknu hverju kjöri í framkvæmdaráð.

5. grein

Fundir og starfshættir

Halda skal fundi í BSTR svo oft sem ástæða þykir, þó eigi sjaldnar en tvisvar á ári. Jafnframt ber að boða til fundar innan tveggja vikna ef 1/5 hluti fulltrúa óskar þess skriflega.

Boðað er til kynninga, námskeiða og ráðstefna á vegum ráðsins, eftir því, sem tilefni gefst til, í samráði við skrifstofu Staðlaráðs.

Á fundum BSTR er mótuð stefna þess í einstökum verkefnum og á einstökum verkefnasviðum. Jafnframt tekur BSTR afstöðu til tillagna um upphaf eða lok verkefna, staðfestir rekstrar- og verkáætlanir, fylgist með framvindu verkefna og setur framkvæmdaráði sínu þau fyrirmæli, sem þurfa þykir. Enn fremur verða á fundum BSTR tekin til umfjöllunar þau önnur málefni, sem framkvæmdaráðið kýs að leggja fyrir, eða einstakir fulltrúar bera upp með hæfilegum fyrirvara.
Formaður kallar fagstaðlaráðið saman til funda og skipar fundarstjóra.

Fundarboð skulu send út með sannanlegum hætti eigi síðar en 10 dögum fyrir boðaðan fundardag. Í fundarboði skal koma fram dagskrá fundar. Með fundarboði skulu, hverju sinni, fylgja þau gögn, sem fyrir fundinn verða lögð, vegna þeirra mála, sem eru á dagskrá. Heimilt er þó að leggja fram á fundi gögn til kynningar máli, sem ekki er á dagskrá, eða gögn varðandi mál, sem ekki kemur til afgreiðslu á fundinum.

Fulltrúar í BSTR eiga einir rétt til fundarsetu, en heimilt er að veita öðrum áheyrnarsæti.

Fundur telst ályktunarfær, hafi verið rétt til hans boðað.

Fundargerð skal send fulltrúum í BSTR innan tveggja vikna frá fundardegi. Komi engar athugasemdir fram innan tveggja vikna frá útsendingu fundargerðar, skoðast hún samþykkt.

6. grein

Aðalfundur

Aðalfundur BSTR skal haldinn á fyrri hluta árs, í tæka tíð fyrir aðalfund Staðlaráðs. Hver fulltrúi í BSTR hefur eitt atkvæði á aðalfundi. Þessi mál skulu tekin fyrir á aðalfundi:

a) Skýrsla formanns fyrir liðið starfsár
b) Skýrslur starfshópa
c) Staða verkefnad) Reikningar BSTR
e) Starfs- og fjárhagsáætlun yfirstandandi árs, þ.m.t. ráðstöfun aðildargjalda og annarra fjármuna sem BSTR kunna að leggjast til
f) Breytingar á starfsreglum
g) Kosning framkvæmdaráðs (annað hvert ár (oddatöluár))
h) Kosning félagslegra skoðunarmanna reikninga
i) Önnur mál

Starfsár BSTR er almanaksárið.

7. grein

Framkvæmdaráð

Fulltrúar að BSTR kjósa á aðalfundi þess annað hvert ár, til tveggja ára, formann og 3 aðra fulltrúa í framkvæmdaráð úr röðum fulltrúa að BSTR. Framkvæmdaráðið skiptir sjálft með sér verkum. Það fer með málefni BSTR milli funda þess.

8. grein

Rekstur

Rekstur verkefna BSTR, annar en sá sem snýr að faglegri vinnu, er á ábyrgð framkvæmdastjóra Staðlaráðs. Framkvæmdastjóri Staðlaráðs ræður, í samráði við formann BSTR, ritara til að sinna faglegum verkefnum fyrir BSTR og ber hann ábyrgð á störfum sínum gagnvart framkvæmdaráði BSTR.

Fulltrúar eiga ekki rétt á launum frá BSTR, en heimilt er þó að greiða fulltrúa þóknun fyrir tiltekið verkefni sem hann vinnur fyrir BSTR, í samráði við framkvæmdastjóra Staðlaráðs.

Framkvæmdaráðið ber ábyrgð á daglegum rekstri BSTR og framkvæmd þeirra verkefna, sem undir það falla.

Ritari BSTR annast daglegan rekstur þess í umboði framkvæmdaráðsins. Hann er framkvæmdaráðinu til aðstoðar og sinnir þeim verkefnum, sem það felur honum.

Framkvæmdaráðið felur formanni sínum umboð til þess að fara með málefni þess milli framkvæmdaráðsfunda.

9. grein

Skipan tækninefnda

Framkvæmdaráð BSTR hefur frumkvæði að og gerir tillögu til stjórnar Staðlaráðs um stofnun tækninefnda (fastanefnda) á sínu sviði, skipan þeirra og störf. Það skal leita eftir tilnefningu í tækninefndir hjá hagsmunaaðilum.

Framkvæmdaráð skal við gerð tillagna um skipan tækninefnda gæta að því að í þeim sitji fulltrúar sem víðtækastra hagsmuna á sviðinu.  Eftir atvikum skal leitast við að í þeim sitji fulltrúar framleiðenda, seljenda, neytenda, rannsóknaraðila og stjórnvalda.

Framkvæmdaráð skal við gerð tillagna um störf tækninefndar hafa m.a. í huga eftirtalda þætti, einn eða fleiri:

  • faglega vinnu sem tengist þátttöku Staðlaráðs í alþjóðlegu staðlasamstarfi,
  • úrvinnslu á niðurstöðum verkefna í staðlasamstarfi sem Staðlaráð er aðili að,
  • umsjón séríslenskra verkefna, þ.m.t. endurskoðun gildandi íslenskra staðla,
  • ábyrgð á viðhaldi gildandi íslensks staðals.


10. grein

Túlkun staðla

Komi fram ósk um formlega túlkun einstaks ákvæðis gildandi íslensks staðals, skal ætíð leitað til formanns þeirrar nefndar, sem um málið fjallaði, og hann inntur eftir afstöðu hennar til ákvæðisins. Að henni fenginni gefur framkvæmdaráðið umsögn.  Jafnframt ákveður framkvæmdaráðið, hvort ástæða sé til þess að meðhöndla túlkunina sem stöðlunarverkefni. 

Ef ágreiningur er um túlkun BSTR varðandi staðla skal fara með hann skv. 2. gr.

11. grein

Atkvæðagreiðsla

Við afgreiðslu mála á fundum BSTR og framkvæmdaráðs þess skal leitað eftir sem mestri samstöðu og kappkostað að afgreiða mál samhljóða.

Komi til atkvæðagreiðslu um almenn málefni ræður einfaldur meirihluti atkvæða.


12. grein

Ágreiningur

Komi til ágreinings um túlkun þessarra reglna skal málinu vísað til stjórnar Staðlaráðs til úrskurðar.

13. grein

Gildistaka

Reglur þessar öðlast gildi að fenginni staðfestingu aðalfundar Staðlaráðs Íslands. Þeim verður aðeins breytt hafi breyting verið samþykkt á aðalfundi BSTR og staðfest á aðalfundi Staðlaráðs.  Sama gildir um ákvörðun um slit BSTR og ráðstöfun fjármuna komi til slita BSTR.

Staðlaráð Íslands    Þórunnartúni 2, 3. hæð, 105 Reykjavík    Kennitala: 591193 2019    Opnunartími    Sími 520 7150 fax 520 7171

Þessi síða notar vefkökur (e. cookies).

Nánari upplýsingar

Samþykkja